Innlent

Landhelgisgæslan vör við umferð þriggja rússneskra skipa

Eiður Þór Árnason skrifar
Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan fylgdist með ferðum þriggja rússneskra skipa innan íslensku efnahagslögsögunnar fyrr í mánuðinum. Stjórnstöðvar Gæslunnar urðu varar við umferð þriggja óþekktra skipa og fylgdist varðskipið Þór með ferðum eins þeirra í ratsjá.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru í tvígang sendar austur fyrir land til að bera kennsl á hin skipin tvö en athugun leiddi í ljós að um var að ræða rússnesk skip, öll á vegum rússneska flotans, þar af eitt olíuskip.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Tvö skipanna voru austan við landið og eitt á siglingu norður af landinu en öll þrjú voru utan landhelginnar. Áhafnir íslenskra fiskiskipa sýndu ferðum skipanna áhuga og tilkynntu um þær til Landhelgisgæslunnar.

Þrátt fyrir að skipin hafi verið innan efnahagslögsögunnar voru þau á alþjóðlegu hafsvæði með tilliti til siglinga og annarra athafna. Landhelgisgæslan fylgdist með ferðum skipanna sem yfirgáfu efnahagslögsöguna nokkrum dögum síðar, að því er fram kemur í tilkynningu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.