Smitin í grunnskólanum tengjast því að tveir starfsmenn Hraðfrystihússins Gunnvarar greindust smitaðir af veirunni í síðustu viku, að sögn Gylfa Ólafssonar, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Stór hópur mætti í sýnatöku í morgun og er þegar búið að flytja þau sýni til greiningar í Reykjavík. Fleiri sýni verða send síðar í dag til greiningar í kvöld. RÚV segir að áttatíu manns séu í sóttkví vegna smita nemendanna.
„Ekkert af hraðprófunum sem voru tekin í morgun og komið er út úr voru jákvæð sem bendir til þess að þetta sé ekki mjög dreift,“ segir Gylfi.
Samkvæmt nýjum reglum um sóttkví þurfa aðstandendur barna sem lenda í sóttkví ekki að fara í sóttkví. Þeir þurfa að viðhafa smitgát ef þeir mæta í skóla eða vinnu. Gylfi segir að mun fleiri hefðu þurft að fara í sóttkví ef eldri reglur væru enn í gildi.