Innlent

Einka­reknar heilsu­gæslur greiða allt að þrjátíu prósentum meira

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Gunnlaugur Sigurjónsson, forstjóri heilsugæslunnar Höfða.
Gunnlaugur Sigurjónsson, forstjóri heilsugæslunnar Höfða. Vísir

Einkareknar heilsugæslustöðvar þurfa að greiða allt að sextíu prósentum meira í rannsóknarkostnað en hinar opinberu, að sögn forstjóra Heilsugæslunnar Höfða. Hann segir að um sé að ræða mismunun í heilbrigðiskerfinu og íhugar að leita til dómstóla.

Samkeppniseftirlitið beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins árið 2017 að gera úrbætur á rekstrarforsendum gagnvart einkareknum heilsugæslustöðvum. Þrjú atriði voru tilgreind sem hugsanleg mismunun; opinberar stöðvar þurfi hvorki að greiða virðisaukaskatt af keyptri þjónustu né tryggingar fyrir starfsfólk sitt, auk þess sem rannsóknarkostnaður þeirra sé mun lægri.

„Einkareknu stöðvarnar eru að borga um þrjátíu prósent meira heldur en opinberu stöðvarnar og ætli það séu ekki önnur þrjátíu prósent sem stöðvar úti á landi borga umfram það sem einkareknu stöðvarnar þurfa að borga. Og í okkar tilfelli á Höfða þá er þetta sirka tíu prósent útgjalda varðandi læknisþjónustu,“ segir Gunnlaugur Sigurjónsson, forstjóri Heilsugæslunnar Höfða.

Það séu 1,2 stöðugildi, sem Gunnlaugur segir að myndi breyta heilmiklu fyrir þjónustuna á heilsugæslunni. Hann segir heilbrigðisráðuneytið hafa hunsað tilmæli Samkeppniseftirlitsins.

„Nú er það þannig að heilbrigðisþjónusta er undanskilin samkeppnislögum þannig að Samkeppniseftirlitið getur ekki skyldað hið opinbera til að fara að tilmælunum en þetta eru tilmæli því þeir sjá að þarna er klár mismunun í gangi og nú eru liðin fjögur ár og þetta hefur verið algjörlega hunsað,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir þetta ekki síður mismunun gagnvart þeim sextíu þúsund manns sem sæki þjónustu hjá þeim fjórum einkareknu heilsugæslustöðvum sem starfræktar eru á höfuðborgarsvæðinu. Mögulega fari málið fyrir dómstóla.

„Við þyrftum þá bara að hefja mál, fara bara fyrir dómstóla. Og jú, við höfum alveg velt því fyrir okkur.“

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.