Innlent

Akur­eyringum barst neyðar­kall frá af­skekktu héraði í Rúss­landi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óskað hefur verið eftir aðstoð frá Akureyri.
Óskað hefur verið eftir aðstoð frá Akureyri. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, barst á dögunum neyðarkall frá Sakha-Yakutia héraði í norðaustanverðri Síberíu. Þar geisa miklar skógareldar og hafa Northern Forum samtökin, sem Akureyri er aðili að, óskað eftir aðstoð frá þátttökusveitarfélögum og héruðum.

Meðal annars er óskað eftir eldsneyti og fjármunum, en einnig einföldum nauðsynjavörum á borð við klósettpappír, tannkremi og tannburstum, sjampói og bleyjum.

Bréfið barst bæjaryfirvöldum í þessum mánuði en fjallað var um það á fundi bæjarráðs í gær.  Þar var Ásthildi bæjarstjóra falið að svara bréfinu. Í samtali við Vísi segir Ragnar Hólm Ragnarsson, aðstoðarmaður bæjarstjóra, að ekki sé búið að taka formlega afstöðu til beiðninnar en vilji sé fyrir hendi að bregðast við henni á einhvern hátt.

Í bréfinu, sem lesa má hér, segir að alls 155 skógareldar geisi nú í héraðinu. Alls hafi 3,4 milljónir hektara brunnið og eldar séu farnir að kvikna ískyggilega nálægt íbúasvæðum. Eldunum hafi fylgt mikil eyðilegging sem hingað til hafi verið metin á um milljarð rúblna, um 1,7 milljarð króna.

Vilja bleyju og pela, sápur og hreinsiklúta

Í bréfinu segir að Northern Forum samtökin, sem stofnuð voru árið 1991, séu nú að hefja söfnun á hjálpargögnum til þess að bregðast við neyðarástandinu í Sakha-Yakutia. Verið sé að safna búnaði til að berjast við eldana sem og nauðsynjavörum, auk fjármuna ef hægt er.

Í bréfinu má sjá að óskað er eftir nauðsynjavörum á borð við kerti og eldspýtur, ýmis konar hreinlætisvörur á borð við sápur, þvottaefni og hreinsliklúta. Einnig er óskað eftir bleyjum, pelum og teppum. Þá er einnig óskað eftir eldsneyti, bæði gasi, bensíni og olíu.

Akureyri er eina íslenska sveitarfélagið sem er aðili að Northern-forum samtöknum. Meginmarkmið þeirra er að stuðla að samvinnu héraða og sveitarfélaga á norðurslóðum.


Tengdar fréttir

Norður­slóða­mið­stöð verður á Akur­eyri

Það dylst engum að málefni Norðurslóða vega stöðugt þyngra í þjóðmálaumræðunni og líklega verða þau þungamiðja stjórnmálanna á þessari öld. Fyrir viku voru utanríkisráðherra færðar tillögur að nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða en í framhaldinu leggur ráðherra fram þingsályktunartillögu sem byggir á stefnunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×