Innlent

Tæpar þrjár vikur í aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Stefnt er á aðalmeðferð í hinu svokallaða Rauðagerðismáli þann 13. september, 
Stefnt er á aðalmeðferð í hinu svokallaða Rauðagerðismáli þann 13. september,  Vísir/Vilhelm

Stefnt er á að aðalmeðferð í hinu svokallaða Rauðgerðismáli fari fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. september. Fjórir eru ákærðir í málinu vegna morðsins á Armando Beqiri, fjölskylduföður á þrítugsaldri, sem skotinn var til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði um miðjan febrúar.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir tímasetninguna í samtali við fréttastofu. Ákæran er byggð á 211. grein hegningarlaga sem fjallar um manndráp. 

Armando var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti 13. febrúar síðastliðinn. 

Maður að nafni Angjelin Sterkaj hefur játað morðið við yfirheyrslu lögreglu en Armando var skotinn níu sinnum með 22. kalíbera skammbyssu sem búin var hljóðdeyfi. Angjelin hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn.

Málið var sent til héraðssaksóknara þann 3. maí síðastliðinn og höfðu þá 14 manns stöðu sakbornings. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×