Innlent

Heimila notkun hrað- og sjálfs­prófa með 90 prósent næmi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breyta reglugerð um starfsemi rannsóknarstofa sem stunda greiningu á sjúkdómum sem sóttvarnalög taka til. Með breytingunni verður ekki lengur skylda að rannsóknarstofa með starfsleyfi sjái um allar greiningar sem gerðar eru með hraðprófum hér á landi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Í reglugerðinni segir nú að heilbrigðisstarfsmanni sem hlotið hefur þjálfun, eða sérþjálfaður starfsmaður sem fengið hefur sérstaka þjálfun frá heilbrigðisstarfsmanni, er heimilt að framkvæma greininu á kórónuveirunni með CE-vottuðu hraðprófi.

„Hraðprófin skulu hafa a.m.k. 90% næmi og 97% sértæki samkvæmt mati hlutlausra aðila og hlotið leyfi heilbrigðisráðuneytisins eftir umsögn embætti landlæknis,“ segir í tilkynningunni.

Sé niðurstaða úr slíku prófi jákvæð þarf viðkomandi að staðfesta niðurstöðuna með PCR-prófi, eftir fyrirmælum landlæknis um skyndigreiningarpróf við Covid. Þá þarf einstaklingur sem fær jákvætt úr hraðprófi að einangra sig þar til niðurstaða úr PCR-prófi liggur fyrir.

„Þá verður einstaklingum gert heimilt að nota CE-vottuð sjálfspróf sem markaðssett eru sem sjálfspróf, í samræmi við ætluð not og leiðbeiningar framleiðanda, til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni hjá sjálfum sér. Sjálfsprófin skulu hafa a.m.k. 90% næmi og 95% sértæki. Sé niðurstaða úr slíku sjálfsprófi jákvæð hvíla skyldur 7. gr. laga nr. 19/1997 um sóttvarnir á viðkomandi einstaklingi og skal hann staðfesta niðurstöðuna með RT-PCR prófi. Í samræmi við reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 ber einstaklingi að einangra sig þar til niðurstaða úr RT-PCR prófi liggur fyrir,“ segir í tilkynningunni.

Hér má nálgast reglugerðarbreytinguna í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×