Fótbolti

Ramsdale genginn í raðir Arsenal

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ramsdale mun veita Bernd Leno samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Skyttunum.
Ramsdale mun veita Bernd Leno samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Skyttunum. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Enski markvörðurinn Aaron Ramsdale hefur skrifað undir fjögurra ára samning hjá enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal. Hann kemur til liðsins frá Sheffield United sem féll úr efstu deild í vor.

Ramsdale kostar Arsenal 24 milljónir punda sem getur hækkað í 30 milljónir. Hann var valinn leikmaður tímabilsins hjá Sheffield United í fyrra en gat ekki komið í veg fyrir fall liðsins úr ensku úrvalsdeildinni. Hann lék árið áður með Bournemouth og féll einnig það ár.

Ramsdale mun veita Þjóðverjanum Bernd Leno samkeppni um markvarðarstöðuna hjá Arsenal en sá síðarnefndi hefur sætt gagnrýni síðustu mánuði. Rúnar Alex Rúnarsson mun eflaust falla aftar í goggunarröðina við skiptin en hann hefur verið orðaður við brottför frá enska liðinu.

Ramsdale er annar leikmaðurinn sem Arsenal fær í sínar raðir í dag en Norðmaðurinn Martin Ödegaard kom frá Real Madrid.

Arsenal tapaði fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni fyrir Brentford, 2-0, síðasta föstudag en fær Chelsea í heimsókn í Lundúnaslag á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×