Innlent

Að lágmarki 52 smitaðir eftir dansbúðir á Laugarvatni

Atli Ísleifsson skrifar
Sundlauginni og íþróttahúsinu á Laugarvatni var lokað framan af viku vegna smitsins en nemendur nýttu aðstöðuna í dansbúðunum. Starfsfólk reyndist ekki smitað af Covid-19.
Sundlauginni og íþróttahúsinu á Laugarvatni var lokað framan af viku vegna smitsins en nemendur nýttu aðstöðuna í dansbúðunum. Starfsfólk reyndist ekki smitað af Covid-19. Vísir/Vilhelm

Tvö Covid-smit í sumarbúðum Chantelle Carey á Laugarvatni hafa svo sannarlega dreift úr sér. Alls hafa 52 greinst smitaðir í tengslum við sumarbúðirnar þar sem börn frá tíu ára aldri og upp í tvítug ungmenni æfðu saman dans í eina viku.

Vísir greindi frá því á mánudag að tveir nemendur í dansbúðunum hefðu greinst smitaðir en 128 nemendur tóku þátt auk tólf kennnara sem sáu um kennslu. Fyrir vikið fór mikil fjöldi fólks í sóttkví.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að bróðurparturinn af hinum smituðu séu þeir sem sóttu búðirnar, kenndu þar eða komu þangað á meðan búðunum stóð. 

„Vonandi erum við komin með stærstan hópinn því það voru allir sendir í sóttkví á mánudaginn. Þannig að við erum að vonast til þess að hafa náð flestum af því að fólkið var í sóttkví,“ segir Hjördís.

„Það er það sem sóttkví gerir. Þótt fólk nenni því ekki. Þetta er til þess gert að slíta keðjuna. Við náum því með að setja ákveðnar girðingar í kringum hópinn sem var á staðnum.“

Chantelle Carey, sem skipulagði búðirnar, sagði í tölvupósti til foreldra á sunnudagskvöld að reynt hefði verið að koma í veg fyrir smit í búðunum. Farið hefði verið eftir reglugerðum, samskipti milli hópa takmörkuð og passað upp á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

Dansbúðirnar voru fyrir börn á aldrinum 10-20 ára. Nemendur gistu í Héraðsskólanum á Laugarvatni en einnig á Hostel Laugarvatni og í húsi Ungmennafélags Íslands.

Hjördís segir að þeir sem séu í sóttkví vegna smitsins losni úr sóttkví á sunnudag eða mánudag.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×