Innlent

Vill skoða að hætt verði að setja full­bólu­setta í sótt­kví

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, telur skynsamlegt að skoðað verði hvort hægt verði að taka hraðpróf gild til að koma í veg fyrir sóttkví hér á landi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, telur skynsamlegt að skoðað verði hvort hægt verði að taka hraðpróf gild til að koma í veg fyrir sóttkví hér á landi. Vísir/Vilhelm

Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra telur að skoða þurfi að hætt verði alveg að setja fullbólusetta í sóttkví. Heilbrigðisráðherra vill skoða málin betur.

Í yfirlýsingu sem Samtök atvinnulífsins sendu frá sér í gær kemur fram að það verklag sem viðgengist hefur, að senda heilu bekkina eða árganga í sóttkví og jafnvel foreldra barna greinist einn smitaður gangi ekki til lengdar. 

Ljóst sé að verði þessar reglur í gildi á komandi vetri verði verulegar raskanir á skólastarfi í vetur með tilheyrandi raski fyrir fólk, fjölskyldur og vinnustaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að það hafi verið til skoðunar að taka hraðpróf í gildi vegna þessa.

„Það eru bæði reynsla frá öðrum þjóðum og rannsóknir sem sýna fram á að sjálfspróf heima fyrir í stað þess að börn og heilu bekkjadeildirnar og jafnvel foreldrar þeirra jafnvel fullbólusett fari í sóttkví nái sambærilegum árangri og sóttkvíin,“ sagði Sigurður Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Hann telur þetta skynsamlega nálgun.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta sé skynsamleg nálgun og vegna þess að við séum orðin fullbólusett að þetta sé eitthvað sem við getum lært af reynslu annarra þjóða,“ segir Sigurður.

Skoða þurfi hvort hætt verði alveg svið sóttkví hjá fullbólusettu fólki.

„Það er eitt af því sem ég held að við þurfum að skoða inn í framtíðina ef við ætlum að læra að lifa með veirunni. við verðum hins vegar að fara varlega því það er talsvert af smitum í gangi en við þurfum líka að horfa inn í aðeins lengri framtíð, nokkrar vikur.“

Viðtalið við Sigurð Inga má sjá að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×