„Eyjan lamaðist í nokkra daga, þannig að Grímsey varð að draugaeyju í nokkra daga,“ segir Karen Nótt Halldórsdóttir, hjá hverfisráði Grímseyjar, en kórónuveiran greindist í fyrsta sinn á eyjunni í síðustu viku.
Það þýddi að íbúar eyjunnar, sem telja á fimmta tug, fóru í sóttkví.
Forsagan er sú að læknir var væntanlegur til eyjunnar á þriðjudag í síðustu viku með örvunarskammta fyrir þá sem höfðu fengið Janssen. Hann var beðinn um að taka með sér skimunarbúnað því nokkrir á eyjunni væru með einkenni.

Tveir greindust með veiruna í þeirri skimun. Læknirinn kom svo aftur á sunnudag og þá greindust þrjú smit til viðbótar.
„Svo fengum við skilaboðin í gær hvert á fætur öðru að við værum flest neikvæð og þá var hægt að opna allt aftur,“ segir Karen en sóttkvíin hafði það í för með sér að öll þjónusta lagðist tímabundið af. Sundlaug, veitingastaður, verslun og pylsuvagn, allt lokað á meðan íbúarnir voru í sóttkví.
Þeir sem eru lausir úr sóttkví í dag hafa því þurft að hlaupa undir bagga og sinna þjónustunni á meðan aðrir eru ýmist í einangrun eða sóttkví.
„Við erum vön þessum afleysingum og reddingum í þessu litla samfélaginu,“ segir Karen.
„Það var bara tímaspursmál hvenær veiran myndi berast í fyrsta skiptið til eyjunnar miðað við ferðamannastrauminn hingað í sumar.“