Fótbolti

„Ekkert of alvarlegt“ hjá Robertson

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ekkert slitnaði í ökkla Robertson og sleppur hann því við að fara undir hnífinn.
Ekkert slitnaði í ökkla Robertson og sleppur hann því við að fara undir hnífinn. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Andrew Robertson, vinstri bakvörður Liverpool og skoska landsliðsins í fótbolta, greindi frá því á Twitter-síðu sinni í kvöld að betur hefði farið en á horfðist þegar hann meiddist á ökkla í æfingaleik í gær.

Robertson missteig sig illa í leik Liverpool við spænska liðið Athletic Bilbao á Anfield í Liverpoolborg í gærkvöld. Hann var borinn af velli og hafði margur áhyggjur af því að hann yrði lengi frá.

Robertston fór í myndatöku á ökklanum í dag og hann greinir frá því á Twitter-síðu sinni að meiðslin séu „ekkert of alvarleg“. Hann er ekki brotinn og þá er heldur ekkert slitið í ökklanum. Þó beri á nokkrum skemmdum á liðbönd hans.

Robertson þarf því ekki að fara í aðgerð vegna meiðslanna og eru þau ekki eins alvarleg og óttast var. Hann verður þó líkast til frá í einhverjar vikur og missir af upphafi komandi tímabils.

Líklegt þykir að Grikkinn Kostas Tsimikas þurfi að stíga upp og fylla skarð Robertsons í liðinu.

Tsimikas kom til Liverpool frá Olympiakos í fyrra en spilaði lítið á síðustu leiktíð. Robertson spilaði nánast alla leiki fyrir þá rauðklæddu en meiðsli settu einnig strik í reikning Grikkjans.

Liverpool mætir nýliðum Norwich í fyrsta deildarleik sínum á nýju tímabili um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×