Fótbolti

Tekur sér ekki frí þrátt fyrir að hafa spilað 73 leiki á innan við ári

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pedri í undanúrslitaleik Spánar og Ítalíu á EM í sumar.
Pedri í undanúrslitaleik Spánar og Ítalíu á EM í sumar. Shaun Botterill - UEFA/UEFA via Getty Images

Spænski miðjumaðurinn Pedri mun snúa aftur til æfinga hjá félagi sínu, Barcelona, á miðvikudag. Þetta gerir hann þrátt fyrir að vera nýbúinn að ljúka keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó og hafa áður verið með Spáni á EM fyrr í sumar.

Pedri er aðeins 18 ára gamall en hann stimplaði sig rækilega inn í lið Barcelona síðasta haust og var fastamaður hjá liðinu alla síðustu leiktíð. Hann heillaði Luis Enrique, landsliðsþjálfara Spánar, með frammistöðu sinni og vann sér einnig inn sæti í spænska landsliðinu.

Pedri spilaði alla leiki Spánar á EM í sumar en var þrátt fyrir það einnig kallaður upp í U23 ára landslið Spánar sem fór á Ólympíuleikana í Tókýó síðsumars. Spánn fór þar alla leið í úrslit en tapaði fyrir Brasilíu í framlengdum leik. Pedri lék einnig alla leiki liðs síns á því móti.

Hann setti þar með met þar sem hann hefur spilað 73 keppnisleiki með félagsliði og landsliði frá því að keppni hófst síðasta haust.

Barcelona var ekki hlynnt þeirri ákvörðun hans að fara á Ólympíuleikana eftir EM en spænskir fjölmiðlar greina frá því að Pedri vilji á móti sína lit með því að mæta sem fyrst til æfinga á ný. Hann mun því ekki taka sér sumarfrí, sem Barcelona hefur boðið honum, heldur mæta til æfinga strax á miðvikudag.

Áhugavert verður að sjá hvernig meðhöndlun Pedri mun fá hjá Barcelona á komandi dögum og vikum en það kann að reynast áhættusamt fyrir svo ungan mann að setja svo mikið álag á líkama sinn án hvíldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×