Innlent

Segja að­gerða­pakka ríkis­stjórnarinnar boða grund­vallar­breytingar til hins verra

Árni Sæberg skrifar
Dvalarheimilið Grund er eitt aðildarfélaga samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Dvalarheimilið Grund er eitt aðildarfélaga samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Mynd/Grundarheimilin

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, lýsa stuðningi við markmið stjórnvalda að styðja við Landspítalann í því ástandi sem þar er uppi vegna faraldurs Covid-19. Hins vegar segja samtökin að hluti aðgerðanna feli í sér grundvallarbreytingar til hins verra á getu hjúkrunarheimila landsins til að tryggja öryggi og heilsu íbúa sinna.

Í fréttatilkynningu lýsa samtökin yfir andstöðu sinni við breytingu á reglugerð um færni og heilsumat vegna dvalar og hjúkrunarrýma, og kalla eftir því að hún verði dregin til baka. 

Sú breyting felur í sér að hjúkrunarheimilin hafa ekki lengur tækifæri til að leggja faglegt mat á hvort að hægt sé að tryggja nauðsynlega þjónustu við þá einstaklinga sem fá úthlutað rými á hjúkrunarheimili. 

Sjúklingum verði „sjálfkrafa úthlutað rými"

Eftir breytingu stendur nú í reglugerðinni að hafi sami einstaklingur verið tilnefndur af færni- og heilsumatsnefnd sem annar tveggja í dvalar- eða hjúkrunarrými á stofnun en ekki verið úthlutað rými, skuli viðkomandi sjálfkrafa vera úthlutað rými á þeirri stofnun í þriðja sinn sem hann er tilnefndur.

SFV segja að þegar færa eigi einstakling af sjúkrahúsi inn á hjúkrunarheimili sé algerlega nauðsynlegt að mat sé lagt á hvort að mönnun og aðstæður á ákveðnu hjúkrunarheimili séu til þess fallin að mögulegt sé að tryggja fullnægjandi umönnun og þannig öryggi og heilsu þess einstaklings. Með nýrri reglugerð sé slíkt faglegt mat tekið út úr ferlinu.

Segja ekki tekið tillit til hjúkrunarheimila

Samtökin gera alvarlega athugasemd við að ekkert tillit sé tekið til áhrifa breytinganna á hjúkrunarheimilin, sem eru þegar í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna faraldursins. Eins og vel hefur komið fram í fjölmiðlum ríkir á sumum heimilunum neyðarástand. Við slíkar aðstæður mótmæla samtökin því að auka eigi stórlega álagið á hjúkrunarheimilin, og það án nokkurs samráðs og raun í andstöðu við heimilin.

Hjúkrunarheimilin leggja áherslu á að forgangurinn þurfi alltaf að vera á heilsu og öryggi skjólstæðinga kerfisins. Starfsfólk heimilanna standi nú í eldlínunni í baráttunni við Covid-19 og því sé mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda, án samtals og samráðs, geri baráttuna ekki erfiðari en þörf er á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×