Messi stóð fyrir blaðamannafundi í Barcelona í dag þar sem hann útskýrði brottför sína frá Barcelona og sagðist hann ávallt hafa verið þess fullviss að hann yrði áfram hjá félaginu. Samningur hans rann út fyrr í sumar en hann segir nýjan samning hafa verið kláran en fjármálareglur spænsku úrvalsdeildarinnar, La Liga, hafi gert að verkum að ekki gekk upp að skrifa undir hann.
Franski miðillinn L'Equipe er á meðal þeirra fjölmörgu erlendu miðla sem greina frá því eftir fund Messis í dag að hann muni ganga frá skiptum sínum til Paris Saint-Germain í Frakklandi. L'Equipe segir skiptin ganga í gegn í dag, en ESPN segir að hann fari í læknisskoðun í París í dag og skrifi undir á morgun.
Messi vildi ekki staðfesta hvert för hans væri heitið eftir brottförina frá Barcelona á fundinum í dag en sagði PSG vera á meðal möguleika í stöðunni.
„Það er möguleiki, en ég hef ekki gengið frá neinu við neinn.“ sagði Messi. „Það eru nokkur félög sem hafa sýnt áhuga. Ekkert er í hendi en við erum augljóslega í viðræðum við þá.“
BREAKING: Lionel Messi to PSG is DONE!
— ESPN FC (@ESPNFC) August 8, 2021
He will have his medical tonight or tomorrow morning in Paris before signing his contract sources have told @LaurensJulien pic.twitter.com/eNb2cWOp3Z
Í París mun Messi endurnýja kynni sín við Brasilíumanninn Neymar, en þeir léku saman hjá Barcelona um fjögurra ára skeið, frá 2013 til 2017, áður en sá brasilíski var keyptur fyrir metfé til Parísar.
Neymar er sagður hafa boðið Messi að fá treyju númer 10 frá sér hjá franska félaginu, en Messi muni hafna því og bera númerið 19. Hann bar það hjá Barcelona árin 2006 til 2008, áður en hann fékk tíuna eftir að landi Neymars, Ronaldinho, yfirgaf spænska félagið.
Messi mun skrifa undir tveggja ára samning í frönsku höfuðborginni að verðmæti 25 milljónum evra á ári. Messi fær því tæplega hálfa milljón evra í vikulaun hjá PSG.