Innlent

Stakk af úr leigubíl en skildi óvart símann eftir

Samúel Karl Ólason skrifar
Viðkomandi hét því að greiða reikninginn sinn þegar lögregluþjónar skiluðu símanum.
Viðkomandi hét því að greiða reikninginn sinn þegar lögregluþjónar skiluðu símanum. Vísir/Vilhelm

Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu á fimmta tímanum í miðbænum í nótt. Þá hafði farþegar stungið af frá ógreiddum reikningi en hann skildi óvart síma sinn eftir í bílnum.

Samkvæmt dagbók lögreglu fékk farþeginn símann sinn aftur og hét hann því að greiða skuld sína.

Skömmu fyrir miðnætti nótt barst tilkynning úr miðbænum um að ekið hefði verið á unga konu á rafmagnshlaupahjóli. Hún hafði þá ekið á eða í veg fyrir bíl á gatnamótum en samkvæmt lögreglu er ekki vitað hver staða umferðarljósa var þegar slysið varð.

Þá var konan ekki með hjálm eða annan öryggisbúnað og fann hún til eymsla í hendi. Sjúkraflutningamenn komu á vettvang en að endingu var það aðstandandi hennar sem var kominn á vettvang sem fór með hana á sjúkrahús.

Skömmu seinna barst tilkynning um að ölvaður maður á rafmagnshlaupahjóli hefði ekið á kantstein og fallið með höfuðið í götuna. Hann var með skurð á höfði og var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um ungan mann sem brotið hafði rúðu í veitingastað í Kópavogi. Hann er sagður hafa verið í annarlegu ástandi og hafði verið að hóta fólki. Hann var vistaður í fangageymslu í nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×