Innlent

Reynslan af bylgjunni ráði næstu skrefum

Kjartan Kjartansson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld þurfa að læra af reynslu þessarar bylgju kórónuveirufaraldursins áður en ákvörðun verður tekin um hvað tekur við þegar núverandi takmarkanir falla úr gildi, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Tugir manna greinast nú með kórónuveiruna daglega og gripu stjórnvöld til þess ráðs að setja aftur á fjöldatakmarkanir, nálægðarmörk og grímuskyldu 25. júlí. Þær takmarkanir gilda til föstudagsins 13. ágúst.

Katrín sagði í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni að þrátt fyrir þann fjölda sem nú greinist séu skýr merki um að bóluefni veiti vernd gegn alvarlegum veikindum. Þó þurfi að meta reynsluna af þessari bylgju betur eftir því sem tíminn líður og smitum fjölgar.

Íslendingar séu í töluvert annarri stöðu nú en þegar faraldurinn fór fyrst af stað vegna víðtækrar bólusetningar sem hefur átt sér stað. Sérstaða Íslands hvað hvað varðar hlutfall bólusettra þýði þó að ekki sé hægt að leita í reynslubanka annarra um næstu skref.

„Það er engin forskrift uppi í hillu sem við getum sótt og fylgt. Við þurfum dálítið að læra af þessari reynslu núna. Við sjáum það að þó að bóluefnin veiti þessa vörn hverjum og einum eru þau ekki að ná að skapa þetta hjarðónæmi sem við töluðum um framan af,“ sagði forsætisráðherra.

Á næstu dögum sjáist betur hver þróunin verður á Landspítalanum varðandi þá sem hefur þurft að leggja inn með Covid-19. Út frá þeirri reynslu muni stjórnvöld taka sínar ákvarðanir.

„Það sem hefur gagnast okkur best í þessum faraldri er að taka ákvarðanir sem byggjast á gögnum og upplýsingum og það er það sem við munum halda áfram að gera,“ sagði Katrín.

Þurfa áfram að hafa varann á gagnvart nýjum afbrigðum

Ríkisstjórnin hefur fundað með ýmsum sérfræðingum og fulltrúum hagsmunahópa í samfélaginu undanfarna daga. Katrín sagði að á þeim fundum hafi helst komið fram ákall um aukinn stöðugleika og fyrirsjáanleika til þess að fólk geti gert sínar áætlanir um framtíðina.

„Að sjálfsögðu kallar fólk eftir því núna ef svo fer að við sjáum að það hefur dregið úr áhættu á alvarlegum veikindum að við getum haft aukinn stöðugleika í okkar ráðstöfunum. Það er breytingin sem er að verða,“ sagði forsætisráðherra.

Varaði hún þó við því að um leið þyrfti að hafa varann á gagnvart nýjum afbrigðum eins og delta-afbrigðinu sem er meira smitandi en fyrri afbrigði.

„Það munu koma ný afbrigði þannig að við þurfum áfram að hafa varann á gagnvart því,“ sagði hún.

Mikilvægt að skólastarf geti verið með eðlilegum hætti

Spurð út í skólastarf sem senn á að hefjast og mögulegar bólusetningar á börnum og unglingum sagði Katrín að ákvörðun um bólusetningar væri í höndum sóttvarnalæknis. Sú ákvörðun yrði alfarið tekin á grunni vísinda. Von væri á frekari niðurstöðum úr rannsóknum á virkni bóluefna á meðal barna og unglinga síðar í þessum mánuði og með þeim yrði fylgst.

Stefnt sé að því að skólarnir geti farið af stað með sem eðlilegustum hætti. Katrín sagði að á fundum með hagsmunaaðilum hafi staðið upp úr hversu mikilvægt það væri að börn gætu sótt sér menntun með eðlilegum hætti og fengið rútínu í líf sitt. Það væri mikilvægt fyrir börn og fjölskyldur þeirra, vinnumarkaðinn og einnig sem jafnréttismál.

Ef ákveðið verður að bólusetja börn sagði Katrín að það gæti gerst hratt og örugglega. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu væri þegar tilbúin með áætlanir um það.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.