Fótbolti

Bandarískt fjármálafyrirtæki á að koma La Liga til bjargar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Barcelona er á meðal spænskra liða sem eru í miklum fjárhagskröggum.
Barcelona er á meðal spænskra liða sem eru í miklum fjárhagskröggum. Urbanandsport/NurPhoto via Getty Images

Forráðamenn La Liga, efstu deildar karla í fótbolta á Spáni, hafa samið við bandaríska fjármálafyrirtækið CVC Capital Partners um sölu á 10% hlut í deildinni fyrir 3 milljarða bandaríkjadala. Félögin í deildinni eiga eftir að gefa grænt ljós á söluna.

Samkomulag hefur náðst um söluna milli forráðamanna í deildinni og CVC. Fyrirtækið fjárfestir töluvert í íþróttum og náði samskonar samkomulagi við Serie A, efstu deild á Ítalíu, sem tengdist sjónvarpsrétti þar í landi, en sú fjárfesting var hins vegar ekki samþykkt af félögum í ítölsku A-deildinni.

Talið er að fjárinnspýtingin geti hjálpað fjölda félaga í deildinni, sem eru mörg hver illa leikin fjárhagslega eftir kórónuveirufaraldurinn. Stórveldið Barcelona er þar á meðal, en félagið er vafið skuldum eftir illa ígrundaðar fjárfestingar undanfarin ár.

Samkvæmt fregnum frá Spáni eru þeir sem völdin hafa hjá Real Madrid, helsta keppinauti Barcelona undanfarna áratugi, æfir yfir samningnum og munu þeir ekki samþykkja hann. Deildin er þó rekin með lýðræðissjónarmiðum og má vera að þeir hvítklæddu frá spænsku höfuðborginni hafi lítið um framhaldið að segja.

Samningurinn yrði sá fyrsti sinnar tegundar á meðal stærri deilda í Evrópu. La Liga þarf nú að bíða samþykkis framkvæmdastjórnar deildarinnar auk félaganna sem deildina skipa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×