Innlent

Kennarar áhyggjufullir en vilja þó eðlilegt skólastarf

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Stefnt er að því að hefja hefðbundið skólastarf án takmarkana á öllum skólastigum í haust.
Stefnt er að því að hefja hefðbundið skólastarf án takmarkana á öllum skólastigum í haust. Vísir/Egill

Gert er ráð fyrir að engar takmarkanir verði á skólastarfi í haust að sögn menntamálaráðherra. Formaður Kennarasambands Íslands segir kennara hafa áhyggjur af smithættu en viljuga til þess að halda úti venjulegu skólahaldi.

„Kennarar eru núna að fara aftur í bólusetningu og við fylgjumst mjög náið með stöðunni. Það er ekkert sem bendir til að takmarkanir verði á skólahaldi í haust,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Þetta eigi við um öll skólastig og það sé ekki forsenda að unglingar hafi verið bólusettir.

En miðað við stöðuna almennt núna og hversu margir eru að greinast utan sóttkvíar, er þá ekki líklegt að skólastarf raskist verulega?

„Við verðum að taka á því þegar að því kemur,“ segir Lilja.

Allsherjar og menntamálanefnd Alþingis hefur að beiðni Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, boðað menntamálaráðherra á sinn fund til þess að fara yfir stöðuna. Hún fagnar því að stefnt sé að eðlilegu skólastarfi en segir ýmsu ósvarað um hvort svo geti orðið.

„Ég trúi ekki öðru en að það hafi verið unnið að því markvisst í menntamálaráðuneytinu í sumar að undirbúa hvernig eigi að ná því markmiði. Núna heyrir maður til dæmis talað um að æskilegt sé að bólusetja börn á aldrinum tólf til fimmtán ára og forsætisráðherra talar um að núna eigi að meta kosti og galla þess. Það er auðvitað ansi seint,“ segir Þorbjörg.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.Vísir/ArnarHalldórs

Formaður Kennarasambands Íslands vonar að þetta gangi upp.

„Það er alveg orðið tímabært að setja skólana í forgang og miða aðgerðir að því að nám geti farið fram með sem eðlilegustum hætti,“ segir Ragnar Þór Pétursson, formaður.

Skynjaru einhverjar áhyggjur hjá kennurum yfir þessu?

„Jú, það eru fullt af áhyggjum en ég skynja líka mjög sterka löngun til þess að geta haldið úti venjulegu skólastarfi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×