Innlent

Aðrir en skóla­­starfs­­menn geta ekki mætt í bólu­­setningu strax

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frá bólusetningum skólastarfsmanna í dag. Búist er við að um þúsund manns fái örvunarskammt í dag.
Frá bólusetningum skólastarfsmanna í dag. Búist er við að um þúsund manns fái örvunarskammt í dag. stöð 2

Bólu­setningar með örvunar­skammti frá Pfizer fyrir kennara og starfs­menn skóla sem fengu Jans­sen bólu­efnið hófust í dag. Aðrir sem fengu bólu­efni Jans­sen geta ekki freistað þess að mæta í auka­skammta í dag, eins og stundum var boðið upp á þegar heilsugæslan var með skipulegar fjöldabólusetningar í Laugardalshöll fyrr í sumar.

„Nei, það eru bara kennarar og skóla­fólk sem fær að mæta í dag. Sótt­varna­læknir á­kvað að byrja á því núna dagana 3. til 13. ágúst og síðan er verið að skipu­leggja bólu­setningar með örvunar­skammti fyrir alla hina sem fengu Jans­sen 17. til 19. ágúst,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, í sam­tali við Vísi.

Hún segir eitthvað farið að bera á því að fólk sem hefur fengið Janssen en er ekki skólastarfsfólk sé að reyna að komast að í dag. Heilsugæslan geti þó aðeins sinnt hópi kennara og skólastarfsmanna í dag.

Ragnheiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins.Vísir/Egill

Bólusetningar á þeim sem eru enn óbólusettir hafa farið fram alla virka daga klukkan 14 síðan um miðjan júlí. Þær eru þó aðeins hugsaðar fyrir þá sem geta alls ekki beðið fram í miðjan ágúst og er hámark þeirra sem geta mætt í þær hundrað manns á dag. Skráning í þær fer í gegn um heilsugæslustöðvar fólks. 

„Það hefur verið stöðugur straumur hjá okkur í dag og góð mæting,“ segir Ragn­heiður. „Við reiknum með að fara upp í um þúsund skammta í dag og vera búin klukkan fjögur.“

Hún segir fáa starfs­menn heilsu­gæslunnar við störf til að bólu­setja enda séu flestir enn í sumar­fríi.

Á­kveðið var að fara eftir nýju kerfi við bólu­setningar skóla­starfs­fólks, fæðingar­mánuði þeirra. Í dag eiga þeir skóla­starfs­menn að mæta sem eiga af­mæli í janúar og febrúar, á morgun þeir sem eiga af­mæli í mars og svo koll af kolli.

Á­ætlunina má sjá hér að neðan:

  • Janúar og febrúar 3. ágúst
  • Mars 4. ágúst
  • Apríl 5. ágúst
  • Maí 6. ágúst
  • Júní 9. ágúst
  • Júlí 10. ágúst
  • Ágúst 11. ágúst
  • Septem­ber og októ­ber 12. ágúst
  • Nóvember og desember 13. ágúst


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×