Innlent

Stytta ein­angrun bólu­settra niður í 10 daga

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Góðar fréttir fyrir bólusetta og smitaða.
Góðar fréttir fyrir bólusetta og smitaða. vísir/tumi

Sótt­varna­læknir hefur tekið á­kvörðun um að stytta ein­angrunar­tíma þeirra sem hafa smitast af Co­vid-19 ef þeir eru bólu­settir og geta talist til „hraustra ein­stak­linga“. Þeir verða fram­vegis að­eins að vera í ein­angrun í tíu daga en ekki tvær vikur eins og hefur verið hingað til.

Þetta stað­festir Már Kristjáns­son, yfir­læknir smit­sjúk­dóma­deildar Land­spítalans og for­maður far­sótta­nefndar, í sam­tali við Vísi. Hann segir að á­kvörðun um þetta hafi verið tekin í dag og að send verði út til­kynning á eftir.

„Þetta verða tíu dagar í ein­angrun fyrir þá sem eru bólu­settir og geta talist til full­hraustra ein­stak­linga. Að því gefnu að þeir hafi verið ein­kenna­lausir í þrjá daga alla­vega,“ segir Már.

Hann segist ekki geta svarað fyrir hvað liggi að baki á­kvörðuninni, hún hafi verið á borði sótt­varna­læknis.

Hinir sem eru óbólusettir verða áfram að afplána sína tveggja vikna einangrun, sem hefur verið miðað við hingað til. Og verða þá auðvitað að hafa verið einkennalausir í allavega viku til að losna.

Ekki náðist í sóttvarnalækni við gerð fréttarinnar.

Þeir sem eru í ein­angrun eins og er og falla undir þessa skil­greiningu eiga lík­lega von á sím­tali frá Co­vid-göngu­deildinni í dag eða á morgun. Til að fólk geti losnað úr ein­angrun verður deildin að meta á­stand þess með síma­við­tali.

Eins og Vísir greindi frá í dag eru far­sótta­hús stjórn­valda nú yfir­full af sjúk­lingum í ein­angrun og ferða­mönnum í sótt­kví. Ljóst er að þessi breyting eigi eftir að létta eitt­hvað á­lagið á far­sótta­húsunum á næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×