Erlent

Delta-af­brigðið jafn smitandi og hlaupa­bóla

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hið bráðsmitandi delta-afbrigði tröllríður nú nánast allri heimsbyggðinni.
Hið bráðsmitandi delta-afbrigði tröllríður nú nánast allri heimsbyggðinni. getty/kosamtu

Delta-af­brigði kórónu­veirunnar virðist vera meira smitandi en veirurnar sem valda venju­legu kvefi, ár­legum flensum, ebólu og MERS-sjúkdómnum, að mati Sótt­varna­stofnunar Banda­ríkjanna (CDC). Talið er að delta-af­brigðið sé eins smitandi og hlaupa­bóla, sem er afar smitandi sjúk­dómur.

Þetta kemur fram í minnis­blaði CDC sem The New York Times hefur undir höndum. Í því segir að næstu skref stofnunarinnar séu þau að „viður­kenna að stríðið við veiruna hafi tekið stakkaskiptum“ vegna delta-af­brigðisins.

Ný bylgja far­aldursins er hafin í Banda­ríkjunum þar sem veiran hefur náð mikilli dreifingu. Banda­ríkja­menn virðast enn vera að átta sig al­menni­lega á því að bólu­settir geti vel borið smit a milli sín þegar delta-af­brigðið er annars vegar. Það er á meðal þess sem kemur fram í minnis­blaðinu, þó auð­vitað sé talið að bólu­settir séu mun ó­lík­legri til þess að bera veiruna með sér en hinir óbólu­settu.

Grímur geri gagn

CDC gaf ný­lega út ný til­mæli þar sem mælt var með því að grímu­skyldu yrði aftur komið á, einnig fyrir bólu­setta, á þeim svæðum í Banda­ríkjunum þar sem far­aldurinn er í hve mestum vexti. Í minnis­blaðinu er þó mælst til þess að grímu­skyldu verði komið aftur á í öllu landinu til að hefta út­breiðsluna.

Þar er enn­fremur mælst til þess að allir þeir sem eru í á­hættu­hópi, með veik­burða ó­næmis­kerfi, beri grímu meðal al­mennings, sama þó þeir séu á svæðum þar sem far­aldurinn er ekki í miklum vexti. Einnig að þeir beri grímur sem séu í miklum sam­skiptum við börn, sem hafa enn ekki verið bólu­sett, aldraða eða aðra við­kvæma hópa sam­fé­lagsins.

Það er margt öðruvísi við delta-afbrigðið en fyrri afbrigði veirunnar. Til að mynda greinist um tíu sinnum meira magn af veirunni í öndunarfærum þeirra sem eru smitaðir af delta-afbrigðinu en þeim sem voru sýktir af hinu svokallaða alfa-afbrigði, sem þó var talið afar smitandi afbrigði.

Veirumagn í líkama þeirra sem eru smitaðir af delta er þá talið vera allt að þúsund sinnum meira en það magn sem mældist í þeim sem báru upprunalega afbrigði veirunnar.


Tengdar fréttir

Delta-afbrigðið veldur usla víða um heim

Delta-afbrigði Nýju kórónuveirunnar er skæðasta afbrigði veirunnar sem veldur Covid-19 og hefur að miklu leyti snúið baráttunni gegn faraldrinum á haus. Afbrigðið dreifist auðveldar manna á milli en bóluefni virðast veita mikla vörn gegn alvarlegum veikindum meðal smitaðra.

Vona að þriðji skammtur Pfizer hefti út­breiðsluna

Ísraels­menn munu byrja að gefa þriðja skammt af bólu­efni Pfizer til allra þeirra sem eru sex­tíu ára og eldri næsta sunnu­dag. Vonast er til að með þriðja skammtinum náist enn betri vörn gegn delta-af­brigði veirunnar og þannig verði hægt að stöðva út­breiðslu far­aldursins í landinu, sem hefur verið að ná sér aftur á strik.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×