Fótbolti

Jón Dagur blóraböggullinn er AGF féll úr keppni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Dagur hefur eflaust átt betri daga.
Jón Dagur hefur eflaust átt betri daga. Jan Christensen / FrontzoneSport via Getty Images

Landsliðsmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson fékk að líta tvö gul spjöld með átta mínútna millibili er lið hans AGF féll úr keppni í Sambandsdeild Evrópu í kvöld.

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF sem mætti Larne frá Norður-Írlandi í Árósum en þeir dönsku höfðu tapað fyrri leik liðanna 2-1. Ekkert annað en sigur dugði AGF því til áframhaldandi keppni í Evrópu en von þeirra veiktist vegna framgangs Jóns Dags í fyrri hálfleik.

Hann fékk að líta gult spjald á 18. mínútu leiksins og aðeins átta mínútum síðar fékk hann sitt annað gula og spjald og var þar með vísað af velli. Larne nýtti sér liðsmuninn er Ronan Hale kom liðinu 1-0 yfir, og samanlagt 3-1 í einvíginu, í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok jafnaði Patrick Olsen metin fyrir AGF af vítapunktinum og gef þeim dönsku vonarglætu. 

Óskar Sverrisson spilaði síðasta korterið fyrir Häcken sem vann 2-0 heimasigur á skoska liðinu Aberdeen. Sá sigur skilaði sænska liðinu hins vegar litlu þar sem það hafði tapað fyrri leiknum í Aberdeen 5-1. Valgeir Lunddal Friðriksson sat allan tímann á bekknum hjá Häcken sem tapaði einvíginu samtals 5-3 og er úr leik.

Í næstu umferð mun Aberdeen mæta sigurliðinu úr einvígi Breiðabliks og Austria Wien.

Vålerenga vann þá 2-0 sigur á Gent frá Belgíu í Noregi en líkt og hjá Häcken skilaði sigurinn litlu þar sem fyrri leikurinn fór 4-0 fyrir Gent. Viðar Örn Kjartansson er enn frá vegna meiðsla og var ekki í leikmannahópi Vålerenga sem tapaði einvíginu 4-2 og er úr keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×