Enski boltinn

Sagður hafa boðið Liverpool Paul Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba vill ekki framlengja samning sinn við Manchester United.
Paul Pogba vill ekki framlengja samning sinn við Manchester United. Getty/Michael Regan

Það er mikill órói í kringum franska landsliðsmanninn Paul Pogba og framtíð hans hjá Manchester United er í miklu uppnámi.

Nýjasta kjaftasagan er að Mino Raiola, umboðsmaður Pogba, hafi hreinlega boðið Liverpool leikmanninn.

Í frekari fréttum hefur komið fram að Liverpool hafi ekki sýnt því mikinn áhuga að kaupa franska heimsmeistarann frá erkifjendum sínum.

Það er aftur á móti ljóst að Liverpool er að leita að nýjum miðjumanni eftir að Gini Wijnaldum fór frá félaginu til Paris Saint Germain.

Pogba er á sínu síðasta ári af samningi sínum við Manchester United og er sagður hafa hafnað framlengingu.

Pogba vill því komast í burtu frá Old Trafford og hefur mikið verið orðaður fyrir franska liðið Paris Saint Germain.

Pogba gæti verið falur fyrir 50 milljónir punda og hinn umdeildi umboðsmaður hans, Mino Raiola, er þekktur fyrir að fá meira í sinn hlut en aðrir umboðsmenn fótboltamanna.

Leikmenn eru ekki mikið að fara á milli erkifjendanna Manchester United og Liverpool en það gerist síðast árið 1964 þegar Liverpool keypti Phil Chisnall frá United.

Árið 2007 neitaði Sir Alex Ferguson meðal annars að selja Argentínumanninn Gabriel Heinze til Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×