Innlent

Minnst 115 greindust innan­lands í gær

Eiður Þór Árnason skrifar
Langar raðir hafa verið í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu og var metfjöldi sýna tekinn í gær.
Langar raðir hafa verið í sýnatöku á höfuðborgarsvæðinu og var metfjöldi sýna tekinn í gær. Vísir/vilhelm

Í gær greindust minnst 115 einstaklingar innanlands með Covid-19. Af þeim voru 24 óbólusettir og tveir hálfbólusettir. 89 voru utan sóttkvíar við greiningu. 

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á upplýsingavefnum covid.is. Samkvæmt upplýsingum frá Hjördísi Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa almannavarna, er ekki enn búið að ljúka greiningu sýna. Getur fjöldi greindra smita því hækkað síðar í dag líkt og gerðist í gær.

Uppfært klukkan 16.30 : Lokatölur liggja fyrir, alls greindust 122 einstaklingar með Covid-19 í gær. 

852 einstaklingar eru nú í einangrun og 2.243 í sóttkví. Einn farþegi greindist með smit á landamærunum í gær en sá er óbólusettur. 5.935 innanlandssýni voru tekin í gær og hafa þau aldrei verið fleiri á einum sólarhring. 506 sýni voru tekin við landamæraskimun. 

Átta á spítala

Átta sjúklingar liggja inni á Landspítala með Covid-19, þar af einn á gjörgæsludeild. Fimm þeirra voru lagðir inn í gær. Nýgengi innanlandssmita mælist nú 217,3 á hverja 100 þúsund íbúa og hækkar úr 187,3. Af þeim sem eru í einangrun eru flestir í aldurshópunum 18 til 29 og 30 til 39 ára eða samtals 521. Fólk er í einangrun með virkt smit í öllum landshlutum.

Hraður vöxtur hefur verið í útbreiðslu faraldursins síðustu daga og greindust 123 einstaklingar með innanlandssmit á mánudag. Það er mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi frá því að faraldurinn hófst hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.