Fótbolti

United staðfestir komu Varane

Valur Páll Eiríksson skrifar
Varane í leik Frakklands og Sviss í sumar þar sem heimsmeistararnir féllu úr keppni á EM.
Varane í leik Frakklands og Sviss í sumar þar sem heimsmeistararnir féllu úr keppni á EM. UEFA/UEFA via Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur greint frá því að það hafi náð samkomulagi um kaup á franska landsliðsmanninum Raphael Varane frá Real Madrid.

Skipti Varane til United hafa legið í loftinu um nokkurt skeið en félagið greindi frá því í kvöld að samkomulag hafi náðst við Real Madrid. Varane eigi aðeins eftir að undirgangast læknisskoðun og binda þurfi lausa enda í samningsmálum.

Samkvæmt breskum miðlum nemur kaupupphæðin 34 milljónum punda, sem kunni að hækka upp í 42 milljónir. United hefur um langt skeið verið á höttunum eftir Varane og hefur nú tekist að klófesta kappann sem átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum í Madríd.

Varane er 28 ára gamall og hefur leikið 360 leiki fyrir Real Madrid síðan spænska stórveldið festi kaup á honum frá franska liðinu Lens árið 2011. Hann hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum og spænsku deildina þrisvar í spænsku höfuðborginni.

Þá var hann hluti af franska landsliðinu sem varð heimsmeistari árið 2018 og spilaði með liðinu er það féll úr keppni fyrir Sviss í 16-liða úrslitum á EM í sumar.

Varane er þriðji leikmaðurinn sem United fær í sínar raðir í sumar á eftir enska markverðinum Tom Heaton sem kom frá Burnley, og enska landsliðsmanninum Jadon Sancho sem var fenginn fyrir 73 milljónir punda frá Dortmund í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×