Fótbolti

Þurftu að æfa inni og munu bera sorgarbönd á morgun

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leikmenn Leverkusen munu bera sorgarbönd í leik morgundagsins vegna slyssins.
Leikmenn Leverkusen munu bera sorgarbönd í leik morgundagsins vegna slyssins. EPA-EFE/LARS BARON / POOL

Leikmenn þýska úrvalsdeildarfélagsins Bayer Leverkusen þurftu að æfa innandyra eftir sprengingu sem varð í efnaverksmiðju í Leverkusen í dag. Einn lést í sprengingunni og munu leikmenn liðsins bera sorgarband í æfingaleik sínum við Utrecht frá Hollandi á morgun.

Sprenging varð í efnaverksmiðju í Leverkusen í dag með þeim afleiðingum að einn lést og fjögurra er enn saknað samkvæmt breska ríkisútvarpinu, BBC. Sprengingin hafði mikla mengun í för með sér, þar sem svartur mökkur stóð upp frá slysstaðnum. Æfingar þýska félagsins voru því færðar inn fyrir hússins dyr.

Íslenska landsliðskonan Sandra María Jessen er leikmaður kvennaliðs Leverkusen en hún er sem stendur í barneignarleyfi og verður út þetta ár.

Karlalið Bayer Leverkusen hefur átt í vandræðum á undirbúningstímabili sínu þar sem aðeins einn af þremur fyrirhuguðum æfingaleikjum liðsins til þessa hafa farið fram. Leikjum við bæði Wehen Wiesbaden og Dynamo Moskvu var aflýst um miðjan júlí en liðið gerði markalaust jafntefli við Freiburg í sínum eina æfingaleik til þessa síðasta föstudag.

Leverkusen leikur annan undirbúningsleik sinn fyrir komandi tímabil á morgun við hollenska félagið Utrecht, en slys dagsins hefur ekki áhrif á þann leik. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu munu leikmenn bera svört sorgarbönd og hafa einnar mínútu þögn fyrir leik til minningar um þann sem lést í slysi dagsins.

Hins vegar barst þýska liðinu önnur slæm tíðindi í dag þar sem að fimmti og síðasti æfingaleikur liðsins sem fyrirhugaður var við Celta Vigo frá Spáni á laugardaginn kemur er í uppnámi. Celta Vigo er hætt við að spila þann leik vegna COVID-smita innan þeirra raða.

Leverkusen leitar nú nýs mótherja fyrir leikinn á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×