Fótbolti

Richarli­s­on byrjar með látum og Mexíkó pakkaði Frakk­landi saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Richarlison skoraði þrennu í dag.
Richarlison skoraði þrennu í dag. Toru Hanai/Getty Images

Ólympíuleikarnir í knattspyrnu karla hófust í dag með átta leikjum. Af nægu er að taka en helst það að frétta að Richarlison skoraði öll mörk Brasilíu í 4-2 sigri á Þýskalandi, Mexíkó vann 4-1 sigur á Frakklandi og Ástralía lagði Argentínu 2-0.

Um er að ræða U-23 ára landslið þjóðanna sem taka þátt en þrír eldri leikmenn mega vera í hverju liði fyrir sig. Þannig eru reynsluboltar á borð við Dani Alves og Andre-Pierre Gignac á mótinu.

Alves var fyrirliði Brasilíu sem virtist ætla að hefna fyrir tapið á HM 2014 er liðið mætti Þýskalandi. Richarlison skoraði eftir sjö mínútna leik og bætti við öðru marki á 22. mínútu leiksins. Staðan var orðin 3-0 eftir hálftíma og Richarlison kominn með þrennu.

Þannig var staðan í hálfleik en Matheus Cunha fékk kjörið tækifæri til að koma Brasilíu í 4-0 undir lok fyrri hálfleiks. Brasilía fékk vítaspyrnu en Cunha brást bogalistin. Nadiem Amiri minnkaði muninn á 57. mínútu en sex mínútum síðar fékk Maximilian Arnold, fyrirliði Þýskalands, sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt.

Það virtist bara hvetja Þjóðverja áfram en Ragnar Ache minnkaði muninn á 83. mínútu og staðan orðin 3-2. Paulinho slökkti vonir Þjóðverja eftir að þeir höfðu lagt allt í sölurnar til að jafna leikinn. Skorðai hann á 94. mínútu og tryggði 4-2 sigur Brasilíu. 

Andre-Pierre Gignac skoraði eina mark Frakklands sem beið afhroð gegn Mexíkó. Eftir markalausan fyrri hálfleik komu Ernesto Vega og Francisco Cordova Mexíkó 2-0 yfir áður en Gignac minnkaði muninn. Sá franski spilar í Mexíkó og bað stuðningsmenn liðsins afsökunar eftir markið.

Carlos Antuna og Eduardo Aguirre bættu við mörkum fyrir Mexíkó undir lok leiks og tryggðu 4-1 stórsigur Mexíkó. Þá vann Ástralía 2-0 sigur á Argentínu þökk sé mörkum Lachlan Wales og Marco Tilo. Hart var barist í leiknum en alls fóru 12 gul spjöld og eitt rautt á loft í leiknum.

Alls lauk þremur leikjum með 1-0 sigri í dag: Japan vann Suður-Afríku, Nýja-Sjáland vann Suður-Kóreu og Rúmenía vann Hondúras. Fílabeinsströndin vann 2-1 sigur á Sádi-Arabíu en  Egyptaland og Spánn gerðu markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×