Fótbolti

Pelé hrósaði Mörtu fyrir að hvetja milljónir um heim allan og skapa betri heim

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marta fékk mikið hrós frá samlanda sínum Pelé eftir að skora á sínum fimmtu Ólympíuleikum.
Marta fékk mikið hrós frá samlanda sínum Pelé eftir að skora á sínum fimmtu Ólympíuleikum. Pablo Moranoy/Getty Images

Brasilíska goðsögnin Pelé hrósaði samlöndu sinni Mörtu fyrir þá hvatningu sem hún veitir fólki um heim allan. Marta er af mörgum talin ein albesta knattspyrnu heims og jafnvel frá upphafi.

Hin 35 ára gamla Marta Vieira da Silva skoraði tvö af fimm mörkum Brasilíu í þægilegum 5-0 sigri á Kína í gær er þjóðirnar hófu leik á Ólympíuleikunum sem fram fara í Tókýó í Japan að þessu sinni.

Marta hefur nú skorað 111 mörk í 160 leikjum fyrir Brasilíu. Þá voru þetta fimmtu Ólympíuleikarnir sem hún skorar á en það er met. 

Uppskar hún í kjölfarið mikið hrós frá hinum áttræða Edson Arantes do Nascimento, Pelé, en hann birti hugljúfa færslu á Instagram-síðu sinni eftir leikinn.

„Hæ Marta. Þú ert eflaust sofandi núna þar sem þú ert hinum megin á hnettinum. Ég vona að þig dreymi það sem þú áorkaðir fyrir aðeins nokkrum klukkutímum. Talandi um drauma, hversu marga slíka heldur þú að þú hafir haft áhrif á í nótt?“

„Afrek þín eru svo miklu meira en persónuleg met. Þetta augnablik hvetur milljónir íþróttafólks um heim allan. Til hamingju með uppgang þinn og arfleið. Til hamingju, þú ert miklu meira en knattspyrnukona. Þú hefur hjálpað til við að byggja betri heim með hæfileikum þínum. Heim þar sem konur fá meira pláss,“ segir í færslu Pelé á Instagram.

Marta er eflaust hvergi nærri hætt en þrátt fyrir að skora á fimm Ólympíuleikum hefur þessi magnaði framherji aldrei staðið uppi sem sigurvegari. Tvívegis hefur þurft að lúta í gras í úrslitum. Hver veit nema það breytist í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×