Innlent

For­ysta KSÍ ræddi um Gylfa í morgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Klara Bjartmarz segir að Gylfi hafi verið til umræðu í morgun.
Klara Bjartmarz segir að Gylfi hafi verið til umræðu í morgun. Vísir

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, segir að sambandið hafi ekki fengið upplýsingar um hvort knattspyrnumaðurinn sem lögregla í Manchester handtók á föstudag hafi verið Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni. 

Hún segir að fjórir starfsmenn KSÍ hafi rætt málið í morgun en ekki að hafi verið um eiginlegan fund að ræða. 

Lögreglan í Manchester greindi frá því í gær að hún hafi handtekið 31 árs gamlan knattspyrnumann í tengslum við rannsókn á kynferðisbroti gegn barni. Knattspyrnuliðið Everton greindi svo frá því í gær að um sé að ræða leikmann liðsins. Maðurinn var handtekinn á föstudaginn og síðar sleppt gegn tryggingu.  

Lögreglan í Manchester segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hún geti ekki greint frá því um hvern sé að ræða.

Breskir fjölmiðlar segjast ekki geta nafngreint manninn af lagalegum ástæðum. Aðeins tveir leikmenn Everton eru 31 árs, þeir Gylfi Sigurðsson og Englendingurinn Fabian Delph.

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ, segir í samtali við Vísi að sambandið viti ekkert meira um málið en fram hafi komið í fjölmiðlum. KSÍ muni þó fylgjast áfram með málinu eftir því sem nýjar upplýsingar berast.

Everton staðfesti í gær að um liðsmann sé að ræða. 

„Everton getur staðfest að leikmaður í aðalliðinu hafi verið leystur frá störfum á meðan hann er til rannsóknar hjá lögreglu,“ segir í tilkynningunni sem birtist á heimasíðu liðsins.

Breski slúðurmiðillinn The Sun hefur það eftir heimildarmanni að lögreglan hafi gert húsleit á heimili mannsins og gert þar nokkra hluti upptæka.


Tengdar fréttir

Leik­maður E­ver­ton til rann­sóknar í lög­reglu­máli

Enska fótboltaliðið Everton hefur staðfest að leikmaður þeirra sé til rannsóknar í lögreglumáli. Breskir miðlar greindu frá því í dag að leikmaðurinn hafi verið handtekinn grunaður um kynferðisbrot gegn barni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.