Innlent

Tekinn með 27 kíló af grasi og 53 lítra af gambra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gæsluvarðhald sem Grynig sætti á meðan rannsókn málsins stóð dregst frá fangelsisvistinni.
Gæsluvarðhald sem Grynig sætti á meðan rannsókn málsins stóð dregst frá fangelsisvistinni. Vísir/Vilhelm

Karlmaður nokkur hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Maðurinn var tekinn með mikið magn maríjúana, kannabisstangla, plöntur og tæpt kíló af amfetamíni. Þá bruggaði maðurinn sömuleiðis gambra.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á föstudaginn.

Karlmaðurinn, Dawid Grynig, var ásamt sambýliskonu sinni ákærður fyrir að hafa fimmtudaginn 8. apríl síðastliðinn í Hafnarfirði haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni rúmlega 27 kíló af maríjúana. Sömuleiðis 114 grömm af hassi, 8,7 kíló af kannabisstönglum, fimmtíu kannabisplöntur og tæplega 900 grömm af amfetamíni. Þá voru þau ákærð fyrir að hafa ræktað fyrrnefndar plöntur.

Grynig játaði sök og lagði á það áherslu að hann hefði verið einn að verki. Var hann sömuleiðis ákærður fyrir að hafa á sama tíma verið tekinn með 53 lítra af gambra með 14 prósent áfengisstyrkleika, brot sem hann játaði.

Lögreglan krafðist upptöku á fyrrnefndum efnum en einnig búnaði til framleiðslu. Þar má nefna 39 vatnsdælur, 18 ljós, þrjá tímarofa, tvo hitamæla, loftsíu, tvær mulningskvarnir, Samsung Galaxy S8 síma, Samsung Galaxy S20 síma, Nokia síma og 870 þúsund krónur í reiðufé.

Var Grynig dæmdur í tveggja ára fangelsi og var litið til þess að ræktun hans var skipulögð og nokkuð umfangsmikil. Til málsbóta var horft til játningar hans. Þótti ekki við hæfi að skilorðsbinda refsingu að neinu leyti og vísaði dómurinn til þess hve mikið magn fíkniefnanna var.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×