Fótbolti

Fyrsta þjóðin sem vinnur EM karla og Eurovision á sama árinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
eurotvenna

Eftir að ítalska fótboltalandsliðið vann EM í gær er Ítalía nú handhafi tveggja stærstu titlanna í íþróttum og listum í Evrópu.

Ítalía vann Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí og er þar með fyrsta þjóðin sem vinnur Eurovision og EM í fótbolta karla á sama árinu.

Ítalir unnu Englendinga í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik EM á Wembley í gær. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1-1 en Ítalía vann vítakeppnina, 3-2. Gianluigi Donnarumma, markvörður ítalska liðsins, varði tvö víti og var valinn besti leikmaður mótsins.

Þetta er í annað sinn sem Ítalía verður Evrópumeistari. Ítalir unnu EM 1968 á heimavelli þá tókst þeim ekki að taka tvennuna; vinna EM og Eurovision á sama árinu. Spánn hrósaði sigri í Eurovision það árið með laginu „La La La“ sem söngkonan Massiel flutti.

En nú tókst evrópskri þjóð að vinna þessar tvær stóru keppnir í íþróttum og listum á sama árinu. Sem kunnugt hrósaði Ítalía sigri í Eurovision sem fór fram í Rotterdam í Hollandi. Sigurlagið hét „Zitti e buoni“ og var flutt af hljómsveitinni Måneskin. Á næsta ári fer Eurovision fram á Ítalíu og Ítalir freista þess þá að verða fyrsta þjóðin í um þrjátíu ár til að vinna keppnina tvö ár í röð.

Þegar kemur að EM kvenna og Eurovision þá hefur afrekið einu sinni unnist. Það var árið 1984 þegar Svíar hrósuðu sigri í báðum keppnum. Bræðratríóið Herreys vann Eurovision með laginu „Diggi-Loo Diggi-Ley“ og sænska kvennalandsliðið vann fyrsta Evrópumótið sem haldið var eftir sigur á Englandi, að sjálfsögðu í vítakeppni.

Ítalska fótboltalandsliðið getur bætt öðrum titli í safnið á heimavelli í haust en þá fara úrslit Þjóðadeildarinnar fram á Ítalíu. Í undanúrslitunum mætast Ítalir og Spánverjar annars vegar og Belgar og Frakkar hins vegar.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.