Innlent

Tveir fluttir á bráða­deild eftir rafs­kútu­slys

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samkvæmt dagbók lögreglu voru tveir fluttir á bráðamóttöku eftir að hafa dottið af rafskútu á borð við þessar.
Samkvæmt dagbók lögreglu voru tveir fluttir á bráðamóttöku eftir að hafa dottið af rafskútu á borð við þessar. Vísir/Aníta

Rétt upp úr miðnætti í nótt barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um umferðaróhapp í Hlíðahverfi, þar sem einstaklingur hafði fallið af rafhlaupahjóli, eða rafskútu. Viðkomandi var talinn fótbrotinn og var fluttur á bráðadeild til skoðunar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar er einnig getið um annað umferðaróhapp tengt slíkum tækjum. Það átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt, þar sem annar einstaklingur hafði fallið af hjóli sínu. Viðkomandi var fluttur á bráðadeild til skoðunar, en ekki kemur fram af hvaða toga áverkar viðkomandi voru eða hvort þeir voru alvarlegir.

Á níunda tímanum í gærkvöldi brást lögregla þá við tilkynningu vegna ölvaðs viðskiptavinar veitingastaðar í miðbæ Reykjavíkur sem neitaði að yfirgefa staðinn og er sagður hafa haft í hótunum við starfsfólk staðarins.

Klukkan hálf ellefu óskuðu sjúkraflutningamenn þá eftir aðstoð lögreglu í Hlíðahverfi. Þeir eru sagðir hafa verið að sinna einstaklingi sem veittist að þeim meðan verið var að aðstoða hann.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu í Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan tvö í nótt vegna umferðaróhapps. Þar ku bifreið hafa verið ekið á sauðfé.

Samkvæmt dagbók hafði lögregla afskipti af tveimur ökumönnum í nótt sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.