Fótbolti

Byrjunarliðin í úrslitaleiknum: Óbreytt hjá Ítölum en Trippier kemur inn hjá Englandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Trippier kemur inn í liðið hjá Englandi.
Trippier kemur inn í liðið hjá Englandi. Shaun Botterill - UEFA/UEFA via Getty Images

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, gerir eina breytingu á liði sínu frá sigrinum á Dönum í undanúrslitum EM fyrir úrslitaleikinn við Ítali í kvöld. Ítalir eru með óbreytt lið frá sigri sínum á Spáni.

England vann Danmörku eftir framlengdan undanúrslitaleik á miðvikudag en Southgate gerir þá breytingu á sínu liði að fara í fimm manna vörn. Enska liðið var með fjóra í vörn gegn bæði Úkraínu í 8-liða úrslitunum og Dönum í undanúrslitum.

Southgate stillir hins vegar upp í fimm manna varnarlínu, líkt og hann gerði með góðum árangri gegn Þjóðverjum í 16-liða úrslitunum.

Bukayo Saka fer úr byrjunarliði Englands og Kieran Trippier kemur inn í hans stað. Trippier mun því leika sem hægri vængbakvörður í fimm manna vörn og Kyle Walker fer úr hægri bakvörðinn í miðvörðinn ásamt John Stones og Harry Maguire.

Ítalir stilla upp nákvæmlega sama byrjunarliði og þeir gerðu gegn Spáni í undanúrslitunum á þriðjudag sem vannst eftir vítaspyrnukeppni. Niccolo Barella, Jorginho og Marco Verratti mynda þriggja manna miðju og Emerson heldur sinni stöðu í vinstri bakverðinum.

Byrjunarlið Englands: Pickford; Trippier, Walker, Stones, Maguire, Shaw; Phillips, Rice, Mount; Sterling, Kane.

Byrjunarlið Ítalíu: Donnarumma; Di Lorenzo, Bonucci, Chiellini, Emerson; Barella, Jorginho, Verratti; Chiesa, Immobile, Insigne.

Úrslitaleikur Ítalíu og Englands hefst klukkan 19:00 á Wembley í Lundúnum annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 EM og Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leik hefst klukkan 18:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×