Innlent

Umfangsmesta mál sem ratað hefur á borð landlæknis

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Alma Möller landlæknir segir að næstu vikur fari í að láta sjúklinga vita.
Alma Möller landlæknir segir að næstu vikur fari í að láta sjúklinga vita. Vísir/Vilhelm

Landlæknir segir mál háls, nef- eyrnalæknis sem sviptur var starfsleyfi fyrir að framkvæma fjölda ónauðsynlegra skurðaðgerða vera umfangsmesta mál sem komið hefur á borð embættisins. Embættið skoði nú hvort máli læknisins verði vísað til lögreglu. Landspítalinn hafði sett lækninn í bann við skurðstofuvinnu en það ljáðist að tilkynna um það til landlæknis. 

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og sambærileg mál hafa ekki komið áður til kasta okkar,“ segir Alma Möller landlæknir.

Læknirinn framkvæmdi að mati óháðra sérfræðinga tólf ónauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal á fimmtán og tveggja ára börnum. Hann er talinn hafa stefnt sjúklingum í hættu. Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun landlæknis um að svipta lækninn starfsleyfinu en úrskurður ráðuneytisins var birtur í morgun.

„Við gerðum auðvitað mjög umfangsmikla rannsókn og það er léttir að ráðuneytið hafi nú staðfest okkar ákvarðanir, bæði að rannsóknin sem leiddi til þess að læknirinn var sviptur lækningaleyfi hafi verið gerð á viðunandi hátt og eins að öll stjórnsýsla hafi verið rétt,“ segir Alma.

Í skýrslu embætt­is land­lækn­is kem­ur fram a al­var­leg­ast hafi verið að lækn­ir­inn hafi fram­kvæmt tólf aðgerðir án viður­kenndra ábend­inga en þá fram­kvæmdi hann einnig óeðli­lega marg­ar aðgerðir. Alls fram­kvæmdi hann 53 ónefnd­ar aðgerðir á þriggja mánaða tíma­bili en aðrir lækn­ar á sömu stofu fram­kvæmdu núll til tvær aðgerðir af sama toga á því tíma­bili. Embætti land­lækn­is gerði at­huga­semd­ir við starfs­hætti og verklag lækn­is­ins í 22 af aðgerðunum 53.

Landspítali lét embætti landlæknis ekki vita

Læknirinn starfaði á Handlæknastöðinni Glæsibæ en heimildir fréttastofu herma að hann hafi áður starfað á Landspítalanum. Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að hann hafi leynt Handlæknastöðinni því að hann hafi verið settur í bann á ótilgreindri sjúkrastofnun, sem samkvæmt heimildum fréttastofu er Landspítalinn, í kjölfar veikinda.

„Það er þannig að þessi stofnun sem er nefnd X í úrskurðinum lét embætti landlæknis ekki vita. Við litum það alvarlegum augum og leituðum svara hjá viðkomandi stofnun og þar voru ákveðin svör en það var beðist velvirðingar á þessu og fram kom að stofnunin myndi fara yfir sína verkferla. Við hefðum auðvitað kosið að hafa verið látin vita fyrr,“ segir Alma. Þá hefði verið hægt að bregaðast við fyrr.

Hvers konar aðgerðir voru þetta? „Það kemur ekki fram í úrskurðinum og ég get ekki tjáð mig um annað en þar kemur fram þannig að þetta eru ákveðnar skurðaðgerðir og athugasemdir kollega hans lutu að ákveðnum aðgerðum og þær voru skoðaðar sérstaklega,“ segir Alma. 

Tugir sjúklinga verða upplýstir á næstu vikum

Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að óháðir sérfræðingarnir hafi skoðað 53 aðgerðir á tímabilinu 1. september 2019 til 30. nóvember sama ár, eða um fjórðung af aðgerðum læknisins á tímabilinu.

Ætliði að fara í umfangsmeiri rannsókn? „Okkur fannst mjög mikilvægt að ljúka þessum hluta og fá þennan úrskurð ráðuneytisins um að rétt hafi verið staðið að þessu hjá okkur. Nú hefst annar hluti málsins og hann er einmitt að upplýsa sjúklinga, þannig við munum hafa samband við alla þá sjúklinga sem rannsóknin náði til og líka yfir lengra tímabil og bjóða þeim sem hafa áhyggjur af hafa samband við okkar,“ segir Alma og bætir við að það sé umfangsmikið verk að hafa samband við sjúklingana. Það muni taka einhverjar vikur eða jafnvel mánuði.

Svæfing alltaf áhætta

Alma segist ekki geta fullyrt hvort ónauðsynlegu aðgerðirnar hafi haft áhrif á heilsu fólksins.

„Það er auðvitað alltaf slæmt ef það er verið að gera aðgerðir sem ekki er þörf á, það er inngrip í líkamann og svæfing er alltaf áhætta, þannig að auðvitað á aldrei að gera aðgerð nema nauðsyn krefji“ segir Alma.

Hún segir að fyrst og fremst hafi verið um að ræða aðgerðir á fullorðnu fólki. „Það var einn einstaklingur 15 ára en síðan kom ábending um tveggja ára barn en það var eldra mál,“ segir Alma.

Skoða hvort málið verði sent til lögreglu

Mun læknirinn þurfa að sæta frekari afleiðingum? „Ekki að svo stöddu. Það úrræði sem er þyngst hjá embættinu að svipta einhvern starfsleyfi,“ segir Alma.

Óljóst sé hvort málið sé saknæmt og það eigi eftir að taka endanlega afstöðu til þess hvort málið verið tilkynnt til lögreglu.

„Það er ekki á verksviði embættisins að dæma um það. Það er ekkert í lögum um landlækni um tilkynningarskyldu nema andlát verði en þetta er eitthvað sem við erum að skoða,“ segir Alma.

En af hverju gera menn svona? „Það er nú þannig að menn líta hluti mismunandi augum. Þetta hefur ekki verið rannsakað hjá okkur en eins og fram kemur í úrskurðinum teljum við að þarna bresti faglega hæfni og dómgreind,“ segir Alma. 

Hér að neðan má sjá viðtalið við Ölmu í heild sinni.


Tengdar fréttir

Fjöldi ónauðsynlegra aðgerða þar á meðal á tveggja ára barni

Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embættis landlæknis um að svipta háls, nef- og eyrnalækni starfsleyfi sem læknir fyrir að gera ónauðsynlegar skurðaðgerðir. Læknirinn framkvæmdi að mati óháðra sérfræðinga tólf ónauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal á tveggja ára barni. Hann er talinn hafa stefnt sjúklingum í hættu. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.