Fótbolti

Messi hæddist að liðsfélaga Gylfa eftir klúður hans í vítakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Yerry Mina lenti saman í leiknum eins og sjá má hér.
Lionel Messi og Yerry Mina lenti saman í leiknum eins og sjá má hér. Getty/MB Media

Það var mikil spenna í loftinu í vítaspyrnukeppni Argentínu og Kólumbíu í undanúrslitum Suðurameríkukeppninnar og sjálfur Lionel Messi hikaði ekki við að strá salti í sár mótherja í vítakeppninni.

Kólumbíumaðurinn Yerry Mina, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, varð fyrir því óláni að klikka á víti í vítaspyrnukeppninni en Kólumbíumenn klikkuðu alls á þremur vítum og eru úr leik.

Mina var annar leikmaður Kolumbíu sem klikkaði í vítakeppninni en á endanum var það Lautaro Martínez sem tryggði Argentínumönnum sæti í úrslitaleiknum. Messi tók fyrstu spyrnu Argentínumanna og skoraði.

Kólumbíumenn höfðu komist í undanúrslitaleikinn með því að vinna vítaspyrnukeppni á móti Úrúgvæ. Yerry Mina skoraði þá úr sinni spyrnu og bauð upp á dans á eftir eins og hann gerir vanalega þegar hann skorar í leik. Nú gerði hann það í vítakeppninni.

Þetta virtist fara í taugarnar á mörgum og þar á meðal Messi. Mina og Messi hafði lent aðeins saman í leiknum og var þvi enginn aðdáandi Mina.

Messi hæddist að Mina eftir að Emiliano Martinez varði víti Kólumbíumannsins.

Sjónvarpsvélarnar sýndu þegar Messi öskraði að honum: „Dansaðu núna,“ mátti heyra Messa kalla en þar sem það voru engir áhorfendur á vellinum heyrðist það sem menn voru að segja.

Það heyrðist því líka hvernig markvörðurinn Emiliano Martinez reyndi að taka Mina á taugum fyrir vítið.

„Sjáðu, boltinn er ekki á punktinum,“ sagði Emiliano Martinez fyrst við dómarann áður en hann sneri sér að Mina.

„Þú ert stressaður. Ég sé að þú ert stressaður. Ég veit hvert þú ætlar að skjóta. Ég ætla að éta þig. Mundu, ég ætla að éta þig,“ sagði Martinez.

Martinez stóð við sín orð og varði vítaspyrnu Mina. Martinez, sem er fyrrum markvörður Arsenal og núverandi markvörður Aston Villa, varði alls þrjár vítaspyrnur frá Kólumbíumönnum og var hetja Argentínumanna í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×