Innlent

Rauður bjarmi sést á ný í gígnum eftir tveggja sólarhringa goshlé

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eldbjarminn í gígnum um klukkan hálfeitt eftir miðnætti, eins og hann birtist á vefmyndavél Vísis.
Eldbjarminn í gígnum um klukkan hálfeitt eftir miðnætti, eins og hann birtist á vefmyndavél Vísis. Vísir/Vefmyndavél

Eftir tveggja sólarhringa goshlé hafa aftur sést merki um að opnast hafi fyrir glóandi kviku í gígnum í Fagradalsfjalli. Laust eftir miðnætti mátti á vefmyndavél Vísis greinilega sjá rauðleitan bjarma í gígskálinni, þótt ekki væri farið að sjást í hraunslettur.

Það virðist því ótímabært að lýsa yfir goslokum, þótt eldstöðin hafi hökt talsvert undanfarna tíu daga, með fimm mislangum goshléum frá 28. júní. Hléið sem núna virðist vera lokið er þó það lengsta til þessa.

Óróarit Veðurstofu Íslands frá Fagradalsfjalli, eins og það leit út um klukkan hálfeitt í nótt. Sjá má hvernig óróinn féll skyndilega að kvöldi 5. júlí, fyrir liðlega tveimur sólarhringum.Veðurstofa Íslands

Óróarit Veðurstofu Íslands var fyrir hádegi farið að sýna merki um vaxandi óróa. Ennþá vantar þó talsvert uppá að óróinn nái sama styrk og hefur verið þegar eldgosið hefur verið í fullum ham.

Hér má sjá gíginn í beinni útsendingu á vefmyndavél Vísis:

Hér má sjá frétt í síðustu viku um fyrstu goshléin og eðlisbreytingu sem varð á gosinu:


Tengdar fréttir

Búast ekki við sjáanlegum jarðeldi á næstunni

Lengsta goshlé eldgossins við Fagradalsfjall, alls um þrjátíu og fjórar klukkustundir, stendur enn yfir og ekki er útlit fyrir að jarðeldur sjáist aftur í bráð, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Eldgígurinn gæti verið að rumska eftir langan svefn

Óróamæling í Fagradalsfjalli í morgun bendir til þess að eldgosið gæti verið að taka sig upp að nýju eftir lengsta goshlé til þessa. Miðað við upptaktinn eftir goshléin undanfarna tíu daga kæmi ekki á óvart ef sæist til jarðelds á ný á næstu klukkustundum.

Eldgosið minnti rækilega á sig með mögnuðu sjónarspili

Menn voru farnir að spyrja sig í fyrrakvöld hvort eldgosið í Fagradalsfjalli væri í andarslitrunum. Þar sem þoka hamlaði skyggni að gígnum fékkst þó engin engin staðfesting í gær á því hvað væri í gangi fyrr en þokunni létti í gærkvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×