Íslenski boltinn

Óvenju dökkbláir Stjörnumenn í Evrópukeppninni í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra með nýju Evróputreyju Stjörnumanna.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra með nýju Evróputreyju Stjörnumanna. Fésbók/Stjarnan

Stjörnumenn spila að venju í sérstakri Evróputreyju þegar þeir taka þátt í Evrópukeppninni en framundan er leikur hjá liðinu á móti írska liðinu Bohemian FC í Sambandsdeild UEFA.

Stjörnumenn spila heimaleik sinn á fimmtudagskvöldið á Samsung-vellinum og mæta þar til leiks í nýju treyjunni. Mikil hefð hefur skapast í kringum Evróputreyju félagsins undanfarin ár sem er skemmtilegt.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og fyrrum leikmaður Stjörnunnar líst vel á nýja búninginn en hann fékk ásamt fleirum að skoða hann á undan öðrum.

„Ég er ánægður með svona stílhreina treyju. Alvöru blár litur í þessu og þetta er sigurtreyja held ég. Ég held að það sé bara mjög einfalt,“ sagði Bjarni í myndbandinu sem Stjörnufólk hefur sett saman en það má sjá það hér fyrir neðan.

Jóhann Laxdal er búinn að setja skóna upp á hillu en líst svo vel á treyjuna að hann er að hugsa um að taka skóna aftur niður af hillunni.

„Það er spurning hvort maður bara reyni að komast á skýrslu fyrir leikinn til að klæðast þessari glæsilegu treyju,“ sagði Jóhann Laxdal.

Veigar Páll Gunnarsson er líka sérstaklega ánægður með dökkbláa litinn.

„Ég fíla litinn í honum. Mér finnst þessi dökki litur. Það er alltaf óhugnanlegt að spila á móti liðum sem eru í svona dökkum búningum,“ sagði Veigar Páll.

Fyrri leikur Stjörnunnar og Bohemian FC hefst klukkan 19.45 á Samsungvellinum á morgun en Breiðablik spilar á útivelli á móti Racing FC Union klukkan 17.00 og FH tekur á móti Sligo Rovers í Kaplakrika klukkan 18.00. Allir þessir leikir eru í forkeppninni hinnar nýju Sambandsdeildar UEFA.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.