Fótbolti

Hakimi genginn til liðs við PSG

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Achraf Hakimi skrifaði undir fimm ára samning við frönsku risana.
Achraf Hakimi skrifaði undir fimm ára samning við frönsku risana. Mynd/PSG

Achraf Hakimi, 22 ára bakvörður, er genginn til liðs við Paris Saint-Germain frá Ítalíumeisturum Inter. Hakimi skrifaði undir fimm ára samning við frönsku risana.

PSG greiðir 60 milljónir evra fyrir Hakimi sem á 36 landsleiki fyrir landslið Morokkó. PSG gæti þó að auki þurft að greiða allt að 11 milljónir evra í árangurstengdar tekjur.

Hakimi ólst upp í akademíu Real Madrid, og spilaði níu leiki fyrir félagið áður en hann fór á láni til Borussia Dortmund í tvö ár. 

Hann gekk til liðs við Inter Milan á Ítalíu fyrir seinasta tímabil þar sem hann skoraði sjö mörk í 37 leikjum og hjálpaði liðinu að vinna ítölsku deildina í fyrsta skipti í 11 ár.

Á nýliðnu tímabili mistókst PSG að landa franska titlinum í fyrsta skipti í fjögur ár og þeir ætla sér því að styrkja hópinn fyrir komandi tímabil, en búist er við því að Sergio Ramos og Gianluigi Donnarumma gangi til félagsins á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×