Fótbolti

Kolbeinn brjálaður út í markvörðinn sem hafði af honum dauðafæri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í búningi IFK Gautaborgar.
Kolbeinn Sigþórsson í búningi IFK Gautaborgar. ifkgoteborg.se

Hvorki gengur né rekur hjá Gautaborg, liði íslenska landsliðsmannsins Kolbeins Sigþórssonar, í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Liðið þurfti að þola 1-0 tap fyrir Elfsborg á heimavelli í kvöld þar sem Kolbeinn fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn í lokin en markvörður Gautaborgar hafði það af honum.

Gautaborgarliðið fékk gullið tækifæri til að komast yfir í leiknum eftir rúmlega hálftímaleik þegar það fékk vítaspyrnu. Tobias Sana steig á punktinn en tókst ekki að skora.

Markalaust var í hléi og raunar allt fram á 75. mínútu þegar Johan Larsson skoraði það sem reyndist eina mark leiksins fyrir Elfsborg.

Kolbeinn spilaði allan leikinn fyrir Gautaborg og fékk sannkallað dauðafæri til að jafna leikinn í uppbótartíma. Kolbeinn komst hins vegar ekki í það að koma boltanum í netið þar sem markvörður Gautaborgar, Grikkinn Giannis Anestis, skaut boltanum á einhvern hátt yfir er hann tók boltann frá fótum Kolbeins, sem brást ókvæða við og lét Grikkjann heyra það líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Anestis vissi upp á sig sökina og bað Kolbein afsökunar.

Gautaborg hefur átt afleitu gengi að fagna og aðeins unnið einn leik af fyrstu níu í deildinni. Liðið er með níu stig í 12. sæti deildarinnar, aðeins stigi frá fallsæti.

Uppfært 21:30: Greint var frá því að Kolbeinn hefði skotið yfir en í raun var það markvörðurinn Anestis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×