Fótbolti

Seiglusigur liðs Brynjólfs

Valur Páll Eiríksson skrifar
Brynjólfur spilaði síðasta hálftímann í dag.
Brynjólfur spilaði síðasta hálftímann í dag. DeFodi Images via Getty Images/Peter Zador

Kristiansund, lið Brynjólfs Andersen Willumssonar, vann góðan sigur 3-2 sigur á Brann í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Kristiansund hefur byrjað mótið vel í Noregi en botnlið Brann beið liðsins í dag. Brynjólfur byrjaði á varamannabekknum og var Kristiansund 1-0 undir í hálfleik eftir mark gestanna frá Brann snemma leiks.

Mörk Albanans Agon Mucolli og Torgils Gjertsen á þriggja mínútna kafla snemma í síðari hálfleik kom Kristiansund hins vegar 2-1 yfir áður en Daouda Bamba jafnaði leikinn á 68. mínútu. Brynjólfur hafði þá komið inn á sem varamaður fimm mínútum áður og hjálpaði hann sínum mönnum að skila heim sigri þar sem Andreas Hopmark skoraði sigurmark leiksins stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Kristiansund er eftir sigurinn með 20 stig í fjórða sæti deildarinnar eftir ellefu leiki, en Valerenga, lið Viðars Arnar Kjartanssonar, er með sama stigafjölda í þriðja sætinu og hefur leikið einum leik meira en Kristiansund. Aðeins sex stig eru upp í topplið Molde sem Kristiansund á einni leik inni á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×