Fótbolti

Sjáðu stoðsendingu Mæhle: „Eins og að setja yfirvaraskegg á Mónu Lísu að teikna inn á þetta“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Joakim Mæhle átti frábæra stoðsendingu í dag.
Joakim Mæhle átti frábæra stoðsendingu í dag. Eurasia Sport Images/Getty Images/Marcio Machado

Rætt var um magnaða stoðsendingu danska bakvarðarins Joakims Mæhle á félaga sinn Kasper Dolberg í 2-1 sigri Dana á Tékklandi í 8-liða úrslitum mótsins í dag. Mark Dolbergs skildi liðin að.

Mark Delaney kom Dönum yfir snemma leiks áður en kom að síðara markinu hjá Dolberg undir lok fyrri hálfleiks. Tékkar minnkuðu muninn snemma í síðari hálfleik en komust ekki nær. Danir unnu því 2-1 og komnir í undanúrslit.

„Þessir töfrar hjá Mæhle, sem hefur átt stórkostlegt mót fram að þessu. Óli, þetta er mögnuð sending.“ sagði þáttastjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson og beindi orðum sínum til sérfræðingsins Ólafs Kristjánssonar.

„Það er eins og ég ætti að fara teikna yfirvaraskegg á Mónu Lísu að fara að teikna inn og segja eitthvað taktíkst. Það er bara sending frá Vestergaard, Mæhle með kraftinn og þessi hægri fótar sending - þú sagðir það nú þegar við vorum að horfa á þetta - þetta er bara Quaresma-stæl,“ segir Ólafur sem vísar þar til Portúgalans Ricardo Quaresma sem er þekktur fyrir utanfótartækni sína.

„Maður eyðileggur þetta ekkert. Það er bara að þegja og horfa á þetta og njóta.“ sagði Ólafur.

Danir eru komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta annað hvort Englandi eða Úkraínu sem eigast við núna klukkan 19:00 á Stöð 2 EM. Undanúrslitin fara fram á þriðjudag og miðvikudag.

Sjá má sendingu Mæhle og umræðuna að neðan.

Klippa: Mæhle



Fleiri fréttir

Sjá meira


×