Fótbolti

Lífið leikur við stuðningsmanninn sem missti sig

Sindri Sverrisson skrifar
Það var mikill munur á svipbrigðum svissneska stuðningsmannsins fyrir og eftir jöfnunarmark Svisslendinga.
Það var mikill munur á svipbrigðum svissneska stuðningsmannsins fyrir og eftir jöfnunarmark Svisslendinga. Skjáskot/Stöð 2 Sport

Luca Loutenbach vakti heimsathygli á leik Sviss og Frakklands á Evrópumótinu í fótbolta. Þessi eldheiti stuðningsmaður Sviss hefur nú grætt talsvert á því hve líflegur hann var í stúkunni.

Loutenbach verður á meðal áhorfenda þegar Sviss mætir Spáni í kvöld vegna þess að flugfélagið Swiss Air ákvað að bjóða honum til Pétursborgar. Þangað flýgur Loutenbach að sjálfsögðu á fyrsta farrými, í von um að upplifa sömu sælu og á mánudagskvöld þegar Sviss sló út Frakkland í hádramatískum leik sem endaði í vítaspyrnukeppni.

Í stöðunni 3-2 fyrir Frakklandi var Sviss í sókn en rangstaða dæmd. Þá mátti sjá Loutenbach gjörsamlega í öngum sínum, líkt og hann hefði gefið upp alla von og engin leið væri til að hughreysta hann.

Augnabliki síðar jafnaði Mario Gavranovic metin í 3-3. Aftur var sýnt frá Loutenbach í stúkunni en í þetta sinn var hann kominn úr að ofan, búinn að kasta frá sér hattinum, öskrandi inn á völlinn í mikilli geðshræringu.

Þessir líflegu tilburðir stuðningsmannsins fóru ekki framhjá neinum sem á horfði og fyrirtæki í Sviss keppast nú við að gera samninga við Loutenbach.

Boðið að vera andlit herferðar fyrir bólusetningu

Auk Swiss Air hefur orkudrykkjaframleiðandinn Red Bull samið við Loutenbach, sem virðist reyndar hafa næga orku, en svissneska ferðamálastofan hefur boðið honum í afslöppunarferð til að jafna sig eftir öll lætin.

Svissnesk heilbrigðisyfirvöld vilja svo fá Loutenbach til að vera andlit herferðar sem snýr að því að hvetja fólk til að mæta í bólusetningu vegna kórónuveirunnar.

Það má búast við því að sjónvarpsvélarnar beinist ekki bara að Alvaro Morata, Sergio Busquets, Xherdan Shaqiri og öllum hinum leikmönnunum í dag, heldur líka að Loutenbach í stúkunni sem eflaust á eftir að lifa sig vel inn í leikinn.

Leikur Sviss og Spánar hefst klukkan 16 í beinni útsendingu á Stöð 2 EM. Það er sá fyrri af leikjum dagsins í 8-liða úrslitum en í kvöld klukkan 19 mætast svo Belgía og Ítalía.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×