Erlent

Á ní­ræðis­aldri og ætlar út í geim með Bezos

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Wally Funk verður sú elsta til að fara út í geim.
Wally Funk verður sú elsta til að fara út í geim. AP/NASA

Wally Funk, 82 ára bandarísk kona, verður elsta manneskjan til að fara út í geim en hún mun ganga í lið með Amazon stofnandanum Jeff Bezos og bróður hans í fyrstu geimferð geimferðafyrirtækisins Blue Origin.

Greint var frá því í byrjun júní að Bezos muni ferðast ásamt bróður sínum og óþekktum þriðja aðila út í geim núna í júlí. Funk fær að fara með þremenningunum í ferðina sem heiðursgestur en Bezos greindi frá þessu í myndbandi sem hann deildi á Instagram, þar sem hann færði Funk fréttirnar.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Funk hefur gert tilraun til að ferðast út fyrir lofthjúpinn en hún fór í þjálfun til að verða geimfari á sjöunda áratugi síðustu aldar en varð aldrei heiðursins aðnjótandi.

Geimferðin verður þann 20. júlí næstkomandi og stendur til að skjóta geimförunum fjórum meira en hundrað kílómetra frá yfirborði jarðar. Þau munu því fá að upplifa þyngdarleysi. Geimskutlan mun svo snúa aftur til jarðarinnar með notkun fallhlífa og mun ferðin að öllum líkindum taka um 10 mínútur.

Funk á langa flugsögu að baki og er raunar stórmerkileg kona. Hún fæddist í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum árið 1939 og hefur alla sína æfi verið mikil flugáhugakona. Hún er flugmaður og hefur flogið í meira en 19.600 klukkutíma á ferlinum og kennt meira en þrjú þúsund manns að fljúga flugvélum.

Hún varð fyrsta konan til að vera öryggisrannsakandi fyrir Samgönguöryggismálastofnun Bandaríkjanna (NTSB) og jafnframt fyrsta konan til að vera rannsakandi fyrir Flugmálastjórn Bandaríkjanna (FAA).

Þá var hún sjálfboðaliði í verkefninu Konur í geimnum árið 1961 þar sem hún gekkst undir umfangsmikil líkamleg- og andleg próf í von um að verða geimfari. Verkefninu var síðar skyndilega hætt og hún og hinar konurnar í verkefninu – sem voru betur þekktar sem Mercury 13 – fengu aldrei að fara út í geim með Nasa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.