Erlent

Gefur Löfven tæki­færi til að mynda nýja stjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014.
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. EPA

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, hefur veitt Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra Svíþjóðar, umboð til að mynda nýja stjórn.

Þetta gerist eftir að Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, skilaði sínu umboði þar sem hann sagði ekki vera nægan styrk á þingi til að styðja nýja hægristjórn undir hans forsæti.

Norlén greindi frá því á fréttamannafundi að Löfven hafi frest fram á mánudag til að greina þingforseta frá því hvort að grundvöllur sé fyrir nýrri stjórn. Berist tilkynning um slíkt sé Norlén reiðubúinn að tilnefna Löfven formlega sem forsætisráðherra sem þingið myndi svo greiða atkvæði um síðar sama dag.

Norlén veitti Kristersson síðastliðinn þriðjudag þrjá daga til að kanna grundvöll til myndunar nýrrar stjórnar, en sá frestur hefði runnið út á morgun.

Kristersson sagðist í morgun hafa kannað möguleika á nýrri ríkisstjórn Moderaterna og Kristilegra demókrata, sem myndi njóta stuðnings Svíþjóðardemókrata og Frjálslyndra. Saman eru þessir flokkar með 174 þingmenn, en 175 þarf til að vera með meirihluta á þinginu.

Norlén hefur sagt að nauðsynlegt sé að stjórnarmyndun taki styttri tíma nú en eftir kosningarnar 2018 þegar fjóra mánuði tók að ná saman um nýja stjórn. Þingforseti getur lögum samkvæmt fjórum sinnum veitt formönnum flokka umboð til stjórnarmyndunar, en takist ekki að mynda starfhæfa stjórn eftir það þarf að boða til aukakosninga.

Fari svo að boðað verði til aukakosninga þurfa þær að fara fram innan þriggja mánaða. Það breytir því þó ekki að kosningar munu engu að síður fara fram í september 2022 líkt og áður var áætlað.

Löfven verður starfandi forsætisráðherra þar til ný stjórn verður mynduð.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Segir ekki nægan stuðning fyrir hægri­stjórn og skilar um­boðinu

Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, segir að ekki sé nægur fjöldi manna á sænska þinginu sem myndi styðja við nýja hægristjórn undir hans forsæti. Kristersson hefur því skilað því umboði sem þingforsetinn Andreas Norlén veitti honum til stjórnarmyndunar á þriðjudaginn.

Segir af sér sem ráð­herra til að koma ó­stýr­látum vara­þing­manni frá

Jennie Nilsson, ráðherra byggðamála í Svíþjóð, hefur sagt af sér ráðherraembætti til að geta aftur tekið sæti sem þingmaður. Nilsson segir af sér til að koma varaþingmanninum, sem tók sæti hennar á þingi þegar hún tók sjálf við sem ráðherra, frá og þannig geta greitt atkvæði með Stefan Löfven í mögulegum atkvæðagreiðslum á þingi um næsta forsætisráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.