Fótbolti

Dauðariðillinn sem Ísland missti af stóð undir nafni

Sindri Sverrisson skrifar
Thomas Müller vonsvikinn eftir að hafa klúðrað dauðafæri fyrir Þjóðverja sem féllu úr leik í gær gegn Englendingum.
Thomas Müller vonsvikinn eftir að hafa klúðrað dauðafæri fyrir Þjóðverja sem féllu úr leik í gær gegn Englendingum. AP/Frank Augstein

Öll liðin í dauðariðlinum svokallaða á EM eru fallin úr leik eftir að Þýskaland tapaði fyrir Englandi í gærkvöld.

Heimsmeistarar Frakklands, Evrópumeistarar Portúgals, og Þjóðverjar sem léku á heimavelli í riðlakeppninni, drógust allir saman í F-riðil Evrópumótsins sem umsvifalaust var kallaður dauðariðillinn. Ekkert liðanna komst hins vegar lengra en í 16-liða úrslit.

Ísland hefði orðið fjórða liðið í riðlinum ef fótboltaleikur væri 87 mínútur en svo er víst ekki. Ungverjaland tryggði sér síðasta sætið í dauðariðlinum með því að skora tvö mörk á lokamínútunum gegn Íslandi í úrslitaleik umspilsins.

Ungverjar stóðu sig vel í riðlinum og voru raunar með forystuna í flestar mínútur samtals í leikjunum í riðlinum, þó að þeir enduðu í neðsta sætinu og kæmust ekki í 16-liða úrslitin.

Portúgal tapaði gegn Belgíu í 16-liða úrslitunum, 1-0, og Frakkland tapaði eftir 3-3 jafntefli og vítaspyrnukeppni gegn Sviss, áður en Þýskaland tapaði svo 2-0 gegn Englandi í gærkvöld.

Það er því óhætt að segja að feigð hafi vissulega einkennt F-riðil.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×