Innlent

Há­seti rekinn fyrir Insta­gram-­færslu og fær ekki bætur

Árni Sæberg skrifar
Myndskeiðið sem varð hásetanum að falli var tekið á varðskipinu Þór.
Myndskeiðið sem varð hásetanum að falli var tekið á varðskipinu Þór. Vísir/Vilhelm

Háseti sem sagt var upp störfum hjá Landhelgisgæslunni fór fram á rúmlega sex milljónir króna í bætur vegna uppsagnar sem hann taldi ólögmæta. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af öllum kröfum mannsins í gær.

Hásetinn taldi að áminning sem hann fékk árið 2018 vegna ítrekaðra brota í starfi hafi ekki átt rétt á sér. Honum var gefið að sök að hafa mætt ölvaður og of seint á brúarvakt í varðskipinu Tý um mitt ár 2017 og að hafa sýnt yfirmanni ógnandi og ofbeldisfulla hegðun á árshátíð Landhelgisgæslunnar í byrjun árs 2018.

Héraðsdómur féllst á það með hásetanum að ekki hafi mátt veita honum áminningu vegna atviksins þegar hann var sakaður um að mæta fullur á vakt enda var ekki sannað að hann hafi verið ölvaður. 

Hins vegar segir í dómi héraðsdóms að hásetinn hafi unnið sér inn fyrir áminningu á árshátíðinni með því að ógna yfirmanni sínum. Litið var til þess að hásetinn gekkst við hegðuninni í bréfi sem hann ritaði Landhelgisgæslunni til að andmæla áminningunni.

Rekinn fyrir Instagram-færslu

Þegar hásetanum var tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn með bréfi í febrúar 2019 var honum gefið að sök að hafa tekið efni af öryggismyndavélum Landhelgisgæslunnar og birt opinberlega á Instagram-reikningi sínum í janúar 2019.

Hásetinn bar fyrir sig að ekki mætti segja honum upp fyrir það enda sé það ekki sambærilegt brot og þau sem hann fékk áminningu fyrir. Þá vísar hásetinn til þess að umrætt myndskeið sé nokkurra ára gamalt og tekið af öryggismyndavélum löngu áður en það birtist hjá honum. Aðrir starfsmenn hafi birt myndskeiðið á samfélagsmiðlum án þess að fundið hefði verið að því.

Ríkið vísar til þess að þessari birtingu myndskeiðsins sé bersýnilega ætlað að kasta rýrð á störf Landhelgisgæslunnar. Sú hegðun stefnanda að birta myndbandið hafi verið ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans hjá Landhelgisgæslunni.

Héraðsdómur telur að hásetinn hafi brotið gegn reglum Landhelgisgæslunnar með birtingu myndskeiðsins. Þar sem honum hafði áður verið veitt réttmæt áminning væri birtingin brottrekstrarsök.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×