Fótbolti

Reisti minnisvarða og reif hann svo niður næstu sjö árin

Sindri Sverrisson skrifar
Gareth Southgate faðmaði Joachim Löw eftir að hafa stýrt Englandi til sigurs gegn Þýskalandi á EM í gærkvöld.
Gareth Southgate faðmaði Joachim Löw eftir að hafa stýrt Englandi til sigurs gegn Þýskalandi á EM í gærkvöld. AP/John Sibley

Þýskir fjölmiðlar vonast eftir endurreisn þýska landsliðsins og að hún hefjist í september þegar liðið mætir meðal annars Íslandi á Laugardalsvelli, í undankeppni heimsmeistaramótsins í Katar.

Tapið gegn Englandi í 16-liða úrslitum á EM í gær þýðir að valdatíma þjálfarans Joachims Löw er lokið en í vor var tilkynnt að Hansi Flick, fyrrverandi stjóri Bayern München, myndi taka við þýska landsliðinu eftir EM.

„Evrópumótið átti að veita Joachim Löw leið til að kveðja landsliðið með sæmd. Kveðjustundin varð hins vegar ekki með þeim hætti,“ sagði Boris Büchler í útsendingu ZDF.

Löw stýrði þýska landsliðinu í 15 ár og mun alltaf getað státað sig af frábærum sigri Þýskalands á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2014. Önnur stórmót hafa hins vegar ekki gengið eins vel og eftir að hafa endað í neðsta sæti síns riðils á HM 2018 falla Þjóðverjar nú úr leik strax í 16-liða úrslitum á EM.

Ekki smollið saman í nokkurn tíma

„Með árangrinum á HM árið 2014 reisti Jogi Löw sér minnisvarða. Síðan þá hefur hann varið sjö árum í að brjóta þennan minnisvarða niður,“ sagði Heiko Neumann, sjónvarpsmaður hjá ARD.

Í grein Peter Ahrens í Der Spiegel er taktík Löws gagnrýnd: „Þetta lið er með leikmenn í háum gæðaflokki og margir þeirra eru stjörnur í bestu félagsliðum heims. En sem ellefu manna lið þá hefur landsliðið ekki smollið saman í nokkurn tíma, og þjálfarinn verður að axla ábyrgð á því. Ákvörðun hans um að taka drifkraftinn sem fylgir Joshua Kimmich af miðjunni borgaði sig ekki. Hann hafði ekki heppnina með sér við valið á framherjum. Leroy Sané olli vonbrigðum gegn Ungverjalandi. Á móti Englandi tók Löw Timo Werner af velli eftir klukkutíma leik.“

Eins og fyrr segir er það nú í höndum Hansi Flick að koma Þjóðverjum aftur í hæstu hæðir. Fyrstu leikir hans verða gegn Liechtenstein á útivelli 2. september, Armeníu á heimavelli 5. september, og svo gegn Íslandi á Laugardalsvelli 8. september.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.