Innlent

Bindur vonir við að orgel, altari og annað timbur­verk hafi ekki orðið fyrir raka­skemmdum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Töluvert tjón varð í Háteigskirkju vegna vatnsleka í kjallara kirkjunnar í dag. Kirkjuvörður bindur vonir við að orgel, altari og annað timburverk hafi ekki orðið fyrir rakaskemmdum.

Slökkvilið var kallað út í morgun vegna vatnsleka í kjallara Háteigskirkju. Lekinn uppgötvaðist í morgun en líklegt þykir að byrjað hafi að leka í gærkvöldi eða nótt.

„Þetta kom í ljós þegar ég geng inn í kirkjuna. Þá finn ég þessa skrítnu lykt og eftir því sem ég labba framar í kirkjuna þá fer ég að heyra bylinn í vatninu,“ sagði Rannveig Eva Karlsdóttir, kirkjuvörður í Háteigskirkju.

Slökkvilið hafði nýlokið við að dæla vatni upp úr kjallaranum þegar fréttastofu bar að garði skömmu eftir hádegi, en unnið var að þurrkun í dag. Ekki er vitað hvað olli lekanum.

„En þetta hefur verið einhvers konar sprenging í vatnskerfinu.“

Ekki er vitað hve mikið tjón varð en að sögn Rannveigar er það töluvert. Ýmislegt er geymt í kjallara kirkjunnar meðal annars nótnablöð, jólaskraut og skjöl sem skemmdust.

Þessi nótnablöð eru blaut í gegn.SIGURJÓN ÓLASON

„Loftið hérna er þakið dropum eftir lekann og mikill raki hérna inni. Þessar nótur og skjöl eru meðal þess sem skemmdist í lekanum.“

Lekinn varð einungis í kjallara kirkjunnar en líkt og sést í myndbandinu voru gluggar í alrými kirkjunnar sveittir auk þess sem vatnstaumar láku niður veggina.

Við sjáum að hérna inni er raki í gluggum og lofti. Haldiði að eitthvað hér hafi orðið fyrir skemmdum eins og þetta fallega orgel? 

„Ég vona svo sannarlega ekki við erum líka með flygil í kirkjunni og svo í öllu þessu viðarverki, bekkjunum, altari og svo framvegis, ég vona bara ekki,“ sagði Rannveig.

Hér sjást vatnstaumar leka niður veggina í kirkjuskipinu.SIGURJÓN ÓLASON

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×