Innlent

467 daga þrauta­ganga á enda

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar 13. mars 2020 þar sem tilkynnt var um að gripið yrði til takmarkana á samkomum í fyrsta skipti í Íslandssögunni.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar 13. mars 2020 þar sem tilkynnt var um að gripið yrði til takmarkana á samkomum í fyrsta skipti í Íslandssögunni. vísir/vilhelm

Dagurinn í dag er sann­kallaður há­tíðis­dagur. Hann markar enda­lok sam­komu­tak­markana sem hafa verið í gildi í ein­hverri mynd síðustu 467 daga. Og það vonandi til fram­búðar.

Öllum takmörkunum vegna farsóttar var aflétt á miðnætti og má þar helst nefna afnám grímuskyldu, nándarreglu, fjöldatakmarkana og takmarkana á opnunartíma veitinga- og skemmtistaða.

Sú breyting sem varð helst á­þreifan­leg um leið og tak­markanirnar voru felldar úr gildi á mið­nætti er tví­mæla­laust sú síðast­nefnda en skemmti­staðir voru opnir til klukkan fjögur í nótt í fyrsta skipti í rúma fimm­tán mánuði.

Víða var þessum áfanga fagnað og er ljóst að gleði fólks yfir því að endurheimta óskert frelsi sitt til að skemmta sér á nóttunni er mikil.

Á sumum skemmtistöðum voru síðustu sekúndurnar að miðnætti hreinlega taldar niður og þegar klukkan sló tólf brutust út óskapleg fagnaðarlæti meðal gesta.

Langur vegur

Ríkis­stjórnin nýtti sér heimild í lögum til að tak­marka sam­komur í fyrsta skipti í Ís­lands­sögunni þann 16. mars í fyrra vegna heims­far­aldursins. Síðan tók við strembin bar­átta við út­breiðslu veirunnar með sínum hæðum og lægðum, af­léttingum og herðingum tak­markana á víxl.

Þegar sam­komu­tak­markanir voru settar á fyrst var lagt bann við því að fleiri en 100 manns kæmu saman og fólki bannað að vera í innan við tveggja metra fjar­lægð frá hvert öðru.

Þær voru síðan hertar í nokkrum skrefum og þegar verst lét máttu ekki nema tíu koma saman, tveggja metra reglan og al­menn grímu­skilda var í gildi og var öllum börum, krám, ræktinni, sund­laugum, í­þrótta­fé­lögum og hár­greiðslu­stofum gert að loka starf­semi sinni. Veitinga­staðir urðu þá að loka klukkan tíu á kvöldin.

Um miðjan febrúar í ár fór síðan að sjá til sólar á ný. Ýmis starf­semi fékk að opna á aftur; barir og skemmti­staðir fengu að opna, með tak­mörkunum þó, og var leyfi­legur fjöldi gesta í leik­hús og söfn aukinn. Frá þeim tíma­punkti voru sam­komu­tak­markanir aldrei hertar á ný.

Það var þó ekki fyrr en um miðjan apríl sem stjórn­völd fóru að létta á fjölda­tak­mörkunum þegar leyfi­legur fjöldi var rýmkaður úr tíu í tuttugu. Frá þeim tíma­punkti hafa fjölda­tak­markanir ekki verið hertar á ný en þeim verið af­létt í nokkrum skrefum. Síðasta skrefið í þeim var síðan stigið á mið­nætti í nótt.

„Dagur gleði og gæfu er runninn upp,“ sagði Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, í morgun um þennan tíma­móta­dag. Hann á raunar sjálfur af­mæli og segist vart getað hugsað sér betri af­mælis­gjöf en af­léttingu tak­markana.

Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra segir þessi tíma­mót sannar­leg gleði­tíðindi: „Í raun erum við að endur­heimta á ný það sam­fé­lag sem okkur er eðli­legt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sótt­varna­laga til að tak­marka sam­komur voru virkjaðar vegna heims­far­aldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.