Fótbolti

Samherji Hákons gæti orðið dýrasti leikmaður í sögu danska boltans

Anton Ingi Leifsson skrifar
Daramy getur verið á leið frá FCK.
Daramy getur verið á leið frá FCK. Allan Hogholm / FrontZoneSport

Mohamed Daramy, leikmaður FCK í Danmörku, er eftirsóttur leikmaður en AC Milan er talinn líklegasti áfangastaðurinn.

Danski miðillinn BT greindi frá þessu í gærkvöldi en þeir segja að AC Milan sé tilbúið með risa upphæð fyrir Daramy.

Heimildarmenn BT sem standa félaginu nærri segja að AC Milan sé fremst í röðinni en lið eins og Sevilla, Bayer Leverkusen, Leipzig og Salzburg berjist um Daramy.

BT segir að salan gæti orðið sú stærsta í sögu dönsku úrvalsdeildarinnar en hann hefur nú þegar spilað 82 leiki fyrir danska stórliðið.

Andreas Cornelius, Emre Mor og Alexander Sørloth eru dýrustu leikmennirnir sem hafa verið seldir frá Danmörku en þeir voru allir seldir fyrir yfir tíu milljónir evra.

Daramy og Hákon Arnar Haraldsson spiluðu í gær er FCK gerði 1-1 jafntefli við danska B-deildarliðið Hvidovre í æfingaleik.

BT setti sig í samband við Peter Christiansen, yfirmann knattspyrnumála hjá FCK, sem vildi ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×